Mbappé fékk tækifæri til að koma PSG í forystu strax á áttundu mínútu leiksins gegn Montpellier þegar Christopher Jullien gerðist brotlegur innan vítateigs. Mbappé fór á punktinn, en lét Benjamin Lecomte verja frá sér. Framherjinn fékk þó annað tækifæri þar sem Lecomte stóð of framarlega þegar spyrnan var tekin. Mbappé fór því aftur á punktinn, en Lecomte varði aftur áður en Mbappé tók frákastið og skaut yfir opið markið.
Rúmum tíu mínútum síðar þurfti Mbappé svo frá að hverfa eftir að hafa meiðst á lærvöðva. Búist er við því að hann veðri frá keppni í þrjár vikur og mun hann því meðal annars missa af fyrri leik PSG gegn Bayern München í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu þann 14. febrúar næstkomandi.
Mbappé mun einnig missa af leik liðsins gegn Marseille í frönsku bikarkeppninni þann 8. febrúar og deildarleik liðsins gegn Monaco þremur dögum síðar.