Innlent

Efling skýtur lög­mæti miðlunar­til­lögunnar til héraðs­dóms

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Efling ætlar að kæra miðlunartillögu ríkissáttasemjara til héraðsdóms.
Efling ætlar að kæra miðlunartillögu ríkissáttasemjara til héraðsdóms. Vísir/Vilhelm

Efling hefur ákveðið að skjóta kröfu sinni um ógildingu miðlunartillögu ríkissáttasemjara til Héraðsdóms Reykjavíkur. Þetta gerir félagið vegna viðbragðsleysis Guðmundar Inga Guðbrandssonar vinnumarkaðsráðherra við stjórnsýslukæru Eflingar.

Efling kærði miðlunartillögu ríkissáttasemjara til vinnumarkaðsráðuneytisins 30. janúar síðastliðinn. Til stóð að Guðmundur Ingi fundaði með Eflingu sama dag en fundurinn frestaðist vegna útlandaferðar ráðherra.

Efling segir nú í tilkynningu að ríkissáttasemjara hafi verið stefnt fyrir héraðsdóm þar sem Efling muni krefjast ógildingar miðlunartillögu hans sem kynnt var 26. janúar síðastliðinn. Efling hafi frá upphafi hafnað lögmæti tillögunnar þar sem hún var kynnt eftir að Efling boðaði til verkfalls.  

„Við höfum sagt frá byrjun að miðlunartillaga ríkissáttasemjar er lögleysa og markleysa. Embættið hefur misnotað valdheimildir sínar til að taka afstöðu með sjónarmiðum annars aðilans í kjaradeilu og reyni að svipta hinn aðilann, sem í þessu tilviki er tekjulægsta verkafólk landsins, sjálfstæðum samningsrétti sínum. Við eigum heimtingu á að dómstólar fjalli um þetta framferði,“ er haft eftir Sólveigu Önnu í tilkynningunni. 

Þar segir jafnframt að stefnan veðri lögð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í dag og óskað verði eftir flýtimeðferð. 

Þegar eru nokkur kærumál í gangi í þessari deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins annars vegar og deilu Eflingar og ríkissáttasemjara hins vegar. Ríkissáttasemjari hefur óskað eftir liðsinni héraðsdóms við að fá kjörskrá Eflingar afhenta en sáttasemjari vill leggja miðlunartillögu sína fyrir félagsfólk.

Samtök atvinnulífsins hafa þá kært Eflingu til Félagsdóms en samtökin vilja fá úr um það skorið hvort Eflingarliðar megi leggja niður störf á þriðjudag samkvæmt áætlun á meðan miðlunartillagan hefur ekki verið sett í atkvæðagreiðslu. 


Tengdar fréttir

Vinnu­deilur ekki gagn­legar þegar spenna er í hag­kerfinu

Fjármálaráðherra segir vinnudeilur, líkt og er á milli Samtaka atvinnulífsins (SA) og Eflingar, séu ekki gagnlegar þegar mikil spenna er í hagkerfinu líkt og er um þessar mundir. Hann vill sjá vinnu lagða í að þroska vinnumarkaðsmódelið til að draga úr líkunum á að ágreiningur í kjaraviðræðum endi á svipuðum stað og SA og Efling eru komin á.

Við erum öll Efling

Staðreyndir í kjarabaráttu Eflingar er það eina sem við verðum að einblína á. Þá staðreynd að laun verkafólks duga ekki til framfærslu. Finnst okkur þessi staðreynd ásættanleg? Ef svarið er nei, þá styðjum við kjarabaráttu verkafólks innan Eflingar. Þetta er ekki flóknara. Það er allt í veröldinni samofið og verkfall Eflingar kemur því okkur öllum við. Við erum öll Efling.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×