Innlent

Borðaði ekkert í mánuð og rauf föstuna í frétta­tímanum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Arnar Fannberg Gunnarsson er vaktstjóri í Dalslaug í Reykjavík. Við hittum hann í dag í húsnæði samtakanna Bikers against child abuse, sem hann er meðlimur í. Og þar rauf hann hina mánaðarlöngu föstu.
Arnar Fannberg Gunnarsson er vaktstjóri í Dalslaug í Reykjavík. Við hittum hann í dag í húsnæði samtakanna Bikers against child abuse, sem hann er meðlimur í. Og þar rauf hann hina mánaðarlöngu föstu. Vísir/Sigurjón

Íslenskur karlmaður sem fastaði allan janúarmánuð léttist um rúm tuttugu kíló á meðan föstunni stóð. Honum leið vel allan tímann, að eigin sögn, og langaði aldrei í hamborgara. Við hittum kappann í dag og fylgdumst með honum brjóta föstuna.

Hinn 26 ára Arnar Fannberg Gunnarsson gerði vel við sig í mat og drykk á gamlárskvöld síðastliðið. Og hefur ekki lagt sér matarbita til munns síðan. Á nýársdag hóf hann mánaðarlanga föstu. Við mæltum okkur mót við Arnar í dag, á lokadegi föstunnar, en áður hafði hann lengst fastað í þrjá daga.

Hvernig er þér búið að líða? 

„Æðislega. Engin heilaþoka og ég er með jafnmikla orku, ef ekki meiri, en ég er með vanalega. Og kemst upp með minni svefn en vanalega,“ segir Arnar.

„Ég er búinn að missa 23 kíló af því sem er komið og búinn að þurfa að fara til skósmiðs að bæta við götum í beltið.“

Og eftir mánuð af engu nema vatni, vítamínum og smá salti var Arnari ekkert að vanbúnaði. Í fréttinni hér fyrir neðan má sjá þegar Arnar braut föstuna með heitu soði. Eftir svo langa föstu er nefnilega mikilvægt að fara sér hægt. Þá segir Arnar frá því hvað hann hlakkar mest til að borða, nú þegar fastan er búin. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×