Innlent

Veður­stofu­stjóri í skýjunum

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Árni segir að sér lítist vel á breytingarnar.
Árni segir að sér lítist vel á breytingarnar. Vísir/Arnar

Tíu stofnanir sem heyra undir umhverfisráðuneytið verða að þremur í umfangsmikilli sameiningu sem umhverfisráðherra boðar. Löngu tímabært að fækka stofnunum segir forstjóri Veðurstofunnar.

Umhverfisráðherra kynnti áformin á fundi ríkisstjórnarinnar í gær en vinna við sameininguna hófst í júní síðastliðnum. Breytingarnar eru þessar:

Í stað tíu stofnana verða til þrjár. Náttúruverndar- og minjastofnun, Náttúruvísindastofnun og Loftslagsstofnun.

Náttúruverndar- og minjastofnun mun innihalda Vatnajökulsþjóðgarð, þjóðgarðinn á Þingvöllum, náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar og Minjastofnun. 

Veðurstofa Íslands, Landmælingar Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Íslenskar orkurannsóknir eða ÍSOR og Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn verða að Náttúruvísindastofnun og svo mun ný Loftslagsstofnun taka við Orkustofnun og öllum sviðum Umhverfisstofnunar nema náttúruverndarsviði.

Markmiðin með sameiningunni eru kynnt í tilkynningunni.

Skiptar skoðanir hafa verið á málinu hjá forstöðufólki stofnana sem fréttastofa talaði við í dag en Árna Snorrasyni, forstjóra Veðurstofu Íslands líst vel á breytingarnar. 

„Mér líst bara mjög vel á þær. Það er engin launung að ég hef kallað eftir breytingum á stofnanaumgjörð. Ekki bara ráðuneytisins heldur kannski Stjórnarráðinu sjálfu. Þetta skref sem var tekið með nýju ráðuneyti sem við erum undir var mjög gott skref í þá átt sem ég hefði viljað sjá því áskoranirnar eru gríðarlegar.“

Auglýst verður í stöður forstjóra en ætlar Árni að sækja um?

„Það vill þannig að til að ég á mjög stutt í lok míns skipunartíma og í eftirlaun þannig að ég mun ekki gera það.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×