Fótbolti

Urðu að færa fyrsta leik sinn á HM á mikið stærri leikvang

Sindri Sverrisson skrifar
Sam Kerr og stöllur hennar í ástralska landsliðinu eru vinsælar og spila fyrsta leik sinn á HM í sumar væntanlega fyrir framan algjöran metfjölda í sögu knattspyrnu kvenna í Ástralíu.
Sam Kerr og stöllur hennar í ástralska landsliðinu eru vinsælar og spila fyrsta leik sinn á HM í sumar væntanlega fyrir framan algjöran metfjölda í sögu knattspyrnu kvenna í Ástralíu. Getty/Matt King

Eftirspurnin eftir miðum á upphafsleik Ástralíu á HM kvenna í fótbolta í Eyjaálfu næsta sumar hefur verið slík að mótshaldarar hafa neyðst til að skipta um leikvang.

HM kvenna, sem Íslendingar misstu af með grátlegum hætti á síðasta ári, hefst 20. júlí þegar Nýja-Sjáland og Noregur mætast í upphafsleik í Auckland í Nýja-Sjálandi.

Síðar sama dag mætast svo Ástralía og Írland, og hefur sá leikur verið færður af nýja Allianz-leikvanginum, sem kostaði 116 milljarða króna í byggingu, og yfir á Ólympíuleikvanginn en báðir leikvangar eru í Sydney.

Allianz-leikvangurinn rúmar 42.500 manns en með því að færa leikinn geta 83.500 manns mætt á leik Ástralíu og Írlands.

Til stóð að nýta Ólympíuleikvanginn aðeins fyrir leiki í útsláttarkeppninni, þar á meðal úrslitaleikinn sjálfan sem fram fer 20. ágúst.

Ef uppselt verður á leik á Ólympíuleikvanginum verður samkvæmt The Guardian um að ræða fimmta mesta áhorfendafjölda á leik í knattspyrnu kvenna.

Metið er frá því í apríl á síðasta ári þegar 91.648 manns sáu Sveindísi Jane Jónsdóttur og stöllur hennar í Wolfsburg mæta Barcelona á Camp Nou. Tveir HM-leikir eru á topp fimm listanum, báðir frá því á HM í Bandaríkjunum 1999 þegar 90.185 manns mættu á Rose Bowl.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.