Dyche var ráðinn stjóri Everton í gær. Hann skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við félagið.
Í fyrsta viðtali sínu sem stjóri Everton sagðist Dyche krefjast þess að leikmenn liðsins myndu leggja sig alla fram.
„Ég veit hversu ástríðufullir stuðningsmenn Everton eru og hversu dýrmætt félagið er þeim. Við erum tilbúnir að færa þeim það sem þeir vilja. Það byrjar með því að svitna, leggja sig fram og ná fram þeim grunngildum sem Everton hefur staðið fyrir í mörg ár,“ sagði Dyche.
Ef marka má myndir af fyrstu æfingunni undir stjórn Dyches fá leikmenn Everton svo sannarlega að svitna. Og Dyche virtist skemmta sér konunglega yfir því hann sást skellihlæja að dauðþreyttum Everton-mönnum.
Leikmenn Everton þurfa svo sannarlega að svitna á laugardaginn þegar þeir taka á móti toppliði ensku úrvalsdeildarinnar, Arsenal, í fyrsta leiknum með Dyche við stjórnvölinn. Everton er í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar.