Innlent

Ætlar ekki að beita sér gegn miðlunar­til­lögunni

Bjarki Sigurðsson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félags- og vinnumarkaðsráðherra. Vísir/Vilhelm

Vinnumarkaðsráðherra segist ekki ætla að beita sér fyrir því að ríkissáttasemjari dragi miðlunartillögu sína til baka. Hann segist bera fullt traust til ríkissáttasemjara og segist ætla að funda með Eflingu þegar hann kemur heim frá Kaupmannahöfn. 

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar stéttarfélags, óskaði í síðustu viku eftir fundi með Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, vegna miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA). Fundurinn átti að fara fram í dag en vegna veðurs var flugi ráðherrans til Kaupmannahafnar flýtt og fundinum frestað. 

Í gær sagði Sólveig að hún krefðist þess að ráðherra myndi beita sér gegn miðlunartillögunni. Ríkissáttasemjari vill leggja tillögu sína í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna Eflingar en félagið hefur ekki viljað afhenda kjörskrá. Sáttasemjari leitaði á föstudag til héraðsdóms til að fá gögnin afhent og tekur héraðsdómur beiðni sáttasemjara fyrir í dag.

Í samtali við RÚV segist Guðmundur ekki ætla að beita sér fyrir því að ríkissáttasemjari dragi miðlunartillöguna til baka. Hann segir að embættið sé sjálfstætt í sínum störfum og að hann beri fullt traust til ríkissáttasemjara í deilum Eflingar og SA, sem og í öðrum verkefnum embættisins. 

Aðalsteinn Leifsson er ríkissáttasemjari.Vísir/Vilhelm

Þá mun hann ekki beita sér fyrir því að ríkissáttasemjari komi ekki meira að viðræðunum líkt og stjórn Eflingar hafði krafist. 


Tengdar fréttir

Ríkis­sátta­semjari vísar deilu um kjör­skrá Eflingar til héraðs­dóms

Ríkissáttasemjari hefur óskað eftir liðsinni Héraðsdóms til að fá kjörskrá Eflingar afhenta í tengslum við atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu hans í kjaradeilu félagsins og Samtaka atvinnulífsins. Fjölmenn stéttarfélög opinberra starfsmanna og stjórn Starfsgreinasambandsins hafa ályktað gegn framlagningu miðlunartillögu og segja hana grafa undan rétti stéttarfélaga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×