Innlent

Kallar eftir fundi með lög­reglu og vill hraða­mynda­vél á Norður­strönd

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar

Bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi mun óska eftir fundi með lögreglunni strax í fyrramálið vegna alvarlegs bílslyss sem varð í bænum á föstudag. Bæjarbúar vilja að gripið verði til aðgerða til að koma í veg fyrir hraðakstur, til dæmis með uppsetningu hraðamyndavélar.

Tveir bílar lentu saman á Norðurströnd á Seltjarnarnesi laust eftir klukkan ellefu á föstudagskvöld. Annar ökumannanna hafði verið að taka fram úr bíl þegar hann lenti framan á hinum, sem kom úr gagnstæðri átt.

Betur fór en á horfðist, enginn slasaðist alvarlega en fimm sem voru í bílunum voru fluttir á sjúkrahús.

Samkvæmt sjónarvottum hafði ökumaðurinn, sem var að taka fram úr, verið í einhvers konar kappasktri við annan ungan ökumann á Norðurströnd og töldu sjónarvottarnir að þeir hafi verið á hátt í hundrað kílómetra hraða. Fimmtíu kílómetra hámarkshraði er við Norðurströnd.

Bæjarstjóri segir íbúa hafa haft áhyggjur af hraðakstri á Norðurströnd um langt skeið.

„Það er voðalega vont að það þurfi slys til til þess að umræða myndist,“ segir Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.

 „Þetta er blindur kafli, allt frá Gróttu í vestri að bæjarmörkunum, sem er um það bil tveggja og hálfs  kílómetra kafli. Hér er allt of mikill hraðakstur og oft legið við slysi. Og nú varð slys,“ segir Þór.

Grípa þurfi til aðgerða til að sporna við hraðakstri á þessum kafla, ekki síst þar sem göngugötur liggja yfir veginn á nokkur hundruð metra millibili.

„Hraðamyndavélar og sektandi myndavélar hafa komið til tals. Nú er það á forræði lögreglunnar að raða slíku niður á höfuðborgarsvæðinu. Við munum kalla eftir að hér verði gripið til aðgerða,“ segir Þór. 

Munt þú kalla eftir fundi með lögreglu?

„Já, strax í fyrramálið mun ég kalla eftir fundi með lögreglu og reyna að kanna hvaða möguleikar eru í stöðunni fyrir okkur af því að hér er hreinlega allt of hraður akstur.“


Tengdar fréttir

„Hrað­akstur er dauðans al­vara“

Betur fór en á horfðist þegar tveir bílar, sem komu úr gagnstæðri átt, lentu saman á Seltjarnarnesi. Sjónvarvottar telja að annar þeirra hafi verið á hátt í hundrað kílómetra hraða. Varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar biðlar til fólks að aka varlega og eftir aðstæðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×