Innlent

„Hrað­akstur er dauðans al­vara“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar

Betur fór en á horfðist þegar tveir bílar, sem komu úr gagnstæðri átt, lentu saman á Seltjarnarnesi. Sjónvarvottar telja að annar þeirra hafi verið á hátt í hundrað kílómetra hraða. Varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar biðlar til fólks að aka varlega og eftir aðstæðum.

Slysið varð laust eftir klukkan ellefu í gærkvöldi. Annar ökumaðurinn var nýbúinn að taka framúr þegar hann lenti framan á hinum, sem kom úr gagnstæðri átt. Fimm voru fluttir á sjúkrahús. 

Að sögn lögreglu var hluti farþega ekki í bílbelti en enginn slasaðist alvarlega. Þó var mikið viðbragð á vettvangi og gatan lokuð í um einn og hálfan klukkutía á meðan aðgerðir viðbragðsaðila stóðu þar yfir. Fjórir sjúkrabílar og einn dælubíll voru sendir á vettvang auk fjölda lögreglubíla.

Að sögn sjónarvotta, sem fréttastofa hefur rætt við í dag, voru tveir ungir ökumenn í einhvers konar kappakstri áður en annar þeirra lenti í árekstrinum. Kappakstursmennirnir voru nýbúnir að taka fram úr sjónarvottunum þegar slysið varð. Sjónarvottarnir telja að þeir hafi verið á hátt í hundrað kílómetra hraða. Á norðurströnd er fimmtíu kílómetra hámarkshraði. Þá segja þeir að það hafi verið buið að fjarlægja númeraplötur af báðum bílum.

Fjórir voru í kappakstursbílnum en ein kona í bílnum sem hann lenti framan a. Sjónarvottar segja konuna hafa verið í miklu áfalli. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar hafi verið ögn rólegri en hann var fljótur að ná í símann og taka myndband af skemmdunum, að því er virtist til að deila á samfélagsmiðlum.

Lögregla segir að þó árekstur verði á fimmtíu kílómetra hraða, eins og hámarkið er á Norðurströnd, geti það valdið miklu tjóni.

„Ef þú lendir á steinvegg á fimmtíu kílómetra hraða þá verður höggið mjög mikið og afleiðingarnar þar af leiðandi mjög miklar. Þess vegna er þessi þrjátíu kílómetra hámarkshraði í mörgum hverfum til að lágmarka þetta,“ segir Aðalsteinn Guðmundsson, varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar. 

Lögreglan sé hrifin af áformum um lækkun hámarkshraða.

„Að sjálfsögðu er lögreglan hrifin af því þegar við lágmörkum hættuna á árekstrum,“ segir Aðalsteinn. 

„Hraðakstur er dauðans alvara og við reynum eftir fremsta megni að koma í veg fyrir svoleiðis þegar við getum en biðlum til fólks að aka varlega og eftir aðstæðum.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×