Áreksturinn átti sér stað laust eftir klukkan ellefu í gærkvöldi á Norðurstönd á Seltjarnarnesi. Helgi Gunnarsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að í aðdraganda slyssins hafi tveir menn verið í einhvers konar kappakstri.
„Þarna virðast tveir ökumenn hafa verið að leika sér að því að taka fram úr hvor öðrum,“ segir Helgi í samtali við fréttastofu. „Annar tekur semsagt fram úr hinum og lendir framan á bíl sem kemur úr gagnstæðri átt. Hinn bíllinn keyrir í burtu og stingur af. Farþegar virðast þó hafa sloppið vel en það verður talsvert tjón á báðum bílunum. Einhverjir farþegar voru ekki í beltum og það sá nú eitthvað meira á því þess vegna.“
Veginum var lokað og aðgerðir á Norðurbraut stóðu yfir í um einn og hálfan tíma. Fjórir sjúkrabílar og einn dælubíll voru sendir á vettvang.
Helgi gat ekki sagt frekar til um ástand þess fólks sem flutt var á slysadeild. Ljóst sé að ökumennirnir hafi keyrt talsvert yfir hámarkshraða sem er 50 kílómetrar á klukkustund á Norðurströnd. „Þetta var einhver fíflagangur sem hafði þessar afleiðingar,“ segir Helgi.
Sjónarvottar sem fréttastofa hefur verið í sambandi við segja að ökumennirnir hafi verið ungir að aldri og hafi greinilega verið í einhvers konar keppni í spyrnu.