Flóðið sem féll í morgun er mun minna að umfangi en það fyrir fjörutíu árum síðan en lítill snjór er í fjallinu fyrir ofan bæinn. Þó er mikil rigning og verður svæðinu lokað á meðan verið er að meta stöðuna.
Í tilkynningu frá Almannavörnum segir að íbúar séu beðnir um að halda sig fjarri farvegi flóðsins þar sem ekki er hægt að útiloka frekari flóð. Ekki er talin þörf á rýmingu eins og er.

Búið er að virkja samhæfingarstöð í Skógarhlíð og búið að lýsa yfir hættustigi Almannavarna á Patreksfirði.
Flóð féll niður sama farveg og flóðið í dag fyrir nákvæmlega fjörutíu árum og fjórum dögum síðan, þann 22. janúar árið 1983. Um síðustu helgi var haldin minningarathöfn í bænum vegna þess. Fjórir létu lífið í því flóði og slösuðust tíu manns.
Í samtali við fréttastofu segir Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, að mögulega hafi vatn lekið inn í einhver hús. Þó sé engin ástæða til að vera of stressaður á meðan aðgerðastjórn telur íbúa ekki vera í hættu.

„Okkar helstu sérfræðingar eru að skoða aðstæður núna og þetta lítur ágætlega út eftir mínum bestu upplýsingum,“ segir Þórdís.
Engir ofanflóðvarnargarðar eru í Geirseyrargili þar sem krapaflóðið féll en það er í undirbúningi að setja garða þar. Áætlað er að framkvæmdir verði þar árin 2024 til 2028.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnarsviðs hjá ríkislögreglustjóra, segir í samtali við fréttastofu að enginn sé í hættu og engin þörf sé á rýmingum.

„Þetta er miklu minna flóð, miklu minna um sig og veldur engu tjóni, fellur ekki á hús eða neitt slíkt. Gerir það samt að verkum að það er búið að loka svæðinu í kring. Það er ekki hætta talin á stærri flóðum, ekki hætta á að það þurfi að fara í neinar rýmingar. Það gætu haldið áfram að koma svona púlsar í þennan farveg, þess vegna er búið að loka svæðinu. Það er enginn í hættu og ekki þörf á rýmingum,“ segir Víðir.
Aðspurður hver næstu skref séu segir hann að ofanflóðasérfræðingar Veðurstofunnar séu að fara yfir þetta og gefa almannavörnum ráð. Það mun koma í ljós þegar líður á daginn við hverju má búast.
„Það er talsvert mikið vatn og krap að koma niður enn þá í þessum lækjarfarvegi sem er þarna,“ segir Víðir.