Erlent

Allir reka Roiland eftir ákæru

Bjarki Sigurðsson skrifar
Justin Roiland er ekki með mörg verkefni á borði eftir að hann var ákærður fyrir heimilisofbeldi.
Justin Roiland er ekki með mörg verkefni á borði eftir að hann var ákærður fyrir heimilisofbeldi. Getty/Michael Kovac

Flestöll þeirra fyrirtækja sem framleiða þætti sem Justin Roiland kemur að hafa slitið samstarfi sínu við hann. Roiland hefur verið ákærður fyrir heimilisofbeldi en hann er þekktur fyrir þætti á borð við Rick and Morty og Solar Opposites.

Kona sem var áður í sambandi með Roiland kærði hann árið 2020 eftir að hann beitti hana ofbeldi. Hann var handtekinn í ágúst það ár en sleppt gegn tryggingu. Roiland hefur alla tíð neitað að hafa beitt hana ofbeldi. 

Lögreglan í Kaliforníu-ríki hefur ákært hann fyrir verknaðinn og fer næsti liður málsmeðferðarinnar fram í apríl á þessu ári. Eftir að hann var ákærður komust fjölmiðlar vestanhafs að málinu og fjölluðu um það. 

Í kjölfar þess sleit framleiðslufyrirtækið Adult Swim, sem framleiðir Rick and Morty-þættina, öllum tengslum við Roiland. Hann er annar þeirra sem fundu upp á persónunum og talar fyrir þá báða. 

Í gær var síðan greint frá því að Hulu hefði einnig slitið samstarfi sínu við Roiland en vann þar að gerð tveggja þátta, Solar Opposites og Koala Man. Í Solar Opposites var hann framleiðandi og talaði fyrir eina af aðalpersónum þáttanna og í Koala Man var hann einungis framleiðandi. 

Roiland er einnig hættur að starfa fyrir tölvuleikjafyrirtækið Squanch Games sem hann stofnaði sjálfur ásamt öðrum. Roiland talar fyrir margar af persónum nýjasta leiks þeirra, High on Life.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×