Fótbolti

Þýsku meistararnir misstigu sig annan leikinn í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Yann Sommer kom engum vörnum við þegar Ellyes Skhiri kom gestunum í Köln í forystu.
Yann Sommer kom engum vörnum við þegar Ellyes Skhiri kom gestunum í Köln í forystu. Stefan Matzke - sampics/Corbis via Getty Images

Þýskalandsmeistarar Bayern München björguðu stigi er liðið tók á móti Köln í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld, lokatölur 1-1. Þetta er annar deildarleikurinn í röð sem Bayern tapar stigum og því óhætt að segja að liðið fari hægt af stað eftir langt jóla og HM-frí.

Þýska deildin fór loksins af stað á ný eftir HM-pásuna löngu síðastliðinn föstudag. Þá þurftu þýsku meistararnir að sætta sig við 1-1 jafntefli gegn RB Leipzig og niðurstaðan varð sú sama í kvöld er liðið heimsótti Köln.

Það voru gestirnir í Köln sem voru fyrri til að brjóta ísinn þegar Ellyes Skhiri kom boltanum í netið strax á fjórðu mínútu leiksins.

Lengi vel leit út fyrir að þetta yrði eina mark leiksins, en Joshua Kimmich kom heimamönnum til bjargar þegar hann jafnaði metin á seinustu mínútu venjulegs leiktíma og þar við sat.

Niðurstaðan því 1-1 jafntefli, en þrátt fyrir töpuð stig í tveimur leikjum í röð trónir Bayern enn á toppi deildarinnar með 36 stig eftir 17 leiki, fjórum stigum meira en RB Leipzig sem situr í öðru sæti. Köln situr hins vegar í tíunda sæti með 21 stig.

Þá vann RB leipzig einmitt afar öruggan 6-1 sigur er liðið heimsótti Schalke fyrr í dag og er nú með 32 stig eftir 17 leiki.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.