Erlent

Yfirvöld loka Machu Picchu vegna mótmælanna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Machu Picchu er eitt af sjö undrum veraldar.
Machu Picchu er eitt af sjö undrum veraldar. Getty

Stjórnvöld í Perú hafa lokað einum vinsælasta ferðamannastað landins, Machu Picchu, vegna yfirstandandi mótmæla gegn nýjum forseta landsins. Þau segja ákvörðunina tekna til að vernda ferðamenn og almenna borgara.

Yfir 400 manns sem höfðu lagt leið sína að þessari mikilfenglegu virkisborg Inka sátu fastir þegar lestarsamgöngur voru lagðar niður á fimmtudag. Það var gert í kjölfar þess að skemmdir voru unnar á lestarteinum en yfirvöld hafa vísað ábyrgðinni á hendur mótmælendum.

Búið er að flytja fólkið frá staðnum.

Machu Picchu er eitt af sjö undrum veraldar og heimsóttur af um milljón manns á ári hverju. Sumir velja að ganga að virkisborginni eftir svokallaðri Inka-slóð, sem tekur nokkra daga. Henni hefur einnig verið lokað.

Menningarmálaráðueytið í Perú hefur sagt að þeir sem hafa þegar keypt aðgangsmiða að Machu Picchu geti notað miðan í mánuð eftir að mótmælunum í landinu lýkur eða fengið endurgreitt.

Tugir hafa látið lífið í mótmælunum en mótmælendur vilja forsetann, Dinu Boluarte, frá og krefjast nýrra þingkosninga. Þá krefjast þeir þess að forveri Boluarte, Pedro Castillo, verði látinn laus úr fangelsi.

Hann hefur verið ákærður fyrir uppreisn og samsæri en neitar sök og segist réttmætur leiðtogi landsins.

Evrópusambandið hefur fordæmt ofbeldið sem ríkir í landinu og valdbeitingu lögreglu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×