Fótbolti

Toppliðið úr leik eftir tap gegn botnliðinu í vítaspyrnukeppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cremonese er á leið í átta liða úrslit Coppa Italia eftir óvæntan sigur gegn Napoli.
Cremonese er á leið í átta liða úrslit Coppa Italia eftir óvæntan sigur gegn Napoli. Francesco Pecoraro/Getty Images

Napoli, topplið ítölsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, er fallið úr leik ítölsku bikarkeppninnar Coppa Italia eftir tap gegn botnliði deildarinnar, Cremonese, í vítaspyrnukeppni.

Það voru gestirnir í Cremonese sem voru fyrri til að brjóta ísinn þegar liðið komst í forystu eftir tæplega tuttugu mínútna leik. Heimamenn svöruðu þó með tveimur mörkum með stuttu millibili fyrir hálfleikshléið og staðan því 2-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Það stefndi allt í að það yrðu lokatölur leiksins, en gestirnir í Cremonese gáfust ekki upp og jöfnuðu metin þegar um þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja leiknum.

Gestirnir þurftu svo að spila stóran hluta framlengingarinnar manni færri eftir að Leonardo Sernicola nældi sér í sitt annað gula spjald og þar með rautt þegar enn voru tuttugu mínútur eftir af framlengingunni. Það kom þó ekki að sök og enn var staðan jöfn að framlengingunni lokinni. Því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara.

Þar skoruðu gestirnir úr öllum sínum fimm spyrnum, en Stanislav Lobotka misnotaði fjórðu spyrnu Napoli og þar með voru úrslitin ráðin. Cremonese er á leið í átta liða úrslit Coppa Italia á kostnað Napoli þar sem liðið mætir Roma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×