Í síðustu viku birtist skoðanapistill með fyrirsögninni „Ótímabært sáðlát“ í Viðskiptablaðinu. Pistillinn kom frá nafnlausa höfundinum Tý sem er einn af pistlahöfundum blaðsins. Við greinina var mynd af Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, en greinin fjallaði um að stuðningsmenn flokksins ættu ekki að fagna alveg strax þrátt fyrir útlit um gott gengi í skoðanakönnunum.
Mörgum þótti samsetning fyrirsagnarinnar og myndarinnar ansi ósmekkleg og vöktu athygli á málinu á samfélagsmiðlum.
Viðskiptablaðið getur verið low en þetta er einstaklega ósmekklegt pic.twitter.com/BoFlWg8Tdu
— Stefán Pettersson (@Stebbipett) January 15, 2023
Fyrirsögninni var breytt daginn eftir yfir í „Ótímabær fögnuður“. Í samtali við fréttastofu segir Trausti Hafliðason, ritstjóri Viðskiptablaðsins, að upphaflega fyrirsögnin hafi verið ósmekkleg og því var henni breytt.
„Það voru mistök að birta þessa fyrirsögn svona. Samlíkingin var bara léleg. Samlíkingin var í tengslum við ótímabæran fögnuð kjósenda Samfylkingarinnar á gengi flokksins í skoðanakönnunum. Þá notar þessi pistlahöfundur þessa samlíkingu sem var ósmekkleg. Það voru bara mistök að þetta hafi farið í gegn,“ segir Trausti.
Hann segir að ritstjórn blaðsins muni biðjast velvirðingar á birtingunni í næsta tölublaði sem kemur út á fimmtudag. Þá hefur afsökunarbeiðni verið bætt við neðst við netútgáfu greinarinnar.

„Fólk tengir þetta saman sem ég hef ákveðinn skilning fyrir. Hún hefði aldrei átt að fara svona í gegn. Stundum verða mistök í blaðamennsku,“ segir Trausti.