Fótbolti

„Ef þið fallið þá getið þið hvergi falið ykkur“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Youssef En-Nesyri er leikmaður Sevilla og skoraði í Meistaradeildarleiknum á móti FCK.
Youssef En-Nesyri er leikmaður Sevilla og skoraði í Meistaradeildarleiknum á móti FCK. Getty/Jose Breton

Spænska knattspyrnufélagið Sevilla hefur upplifað mun betri tíma en þá sem leikmenn og stuðningsmenn þurfa að ganga í gegnum þessa dagana.

Sevilla liðið er nefnilega komið í mikla fallhættu í La Liga deildinni eftir aðeins þrjá sigra í fyrstu sautján leikjunum.

Sevilla menn sitja í nítjánda og næstsíðasta sæti með fimmtán stig en það eru þó bara tvö stig í öruggt sæti.

Liðið vann tvo fyrstu leiki ársins 2023, fyrst bikarleik á móti neðri deildar liði og svo 2-1 sigur á Getafe en fór snögglega aftur niður á jörðina eftir tap á móti Girona um síðustu helgi. Það þýðir að Andalúsíuliðið hefur aðeins unnið einn af síðustu átta deildarleikjum sínum.

Liðið hefur þegar tapað tvöfalt fleiri leikjum á tímabilinu en allt tímabilið í fyrra.

Sevilla liðið endaði í fjórða sæti á síðustu leiktíð og var því með í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þar sem liðið vann sinn eina sigur á FC Kaupmannahöfn.

Félagið vann Evrópudeildina 2020 og hafði þá unnið hana fjórum sinnum á sex ára tímabili.

Þótt að Sevilla ekki unnið stóran titil á Spáni síðan félagið varð bikarmeistari 2010 og ekki unnið spænsku deildina síðan 2001 þá hefur félagið mjög oft verið fulltrúi Spánar í Meistaradeildinni.

Nú er öldin önnur og stuðningsmenn fá að upplifa allt aðra baráttu á þessu tímabili.

Öfgastuðningsmenn Sevilla taka þessu ástandi ekki vel og stand í hótunum. Þeir spreyjuðu á leikvang félagsins skilaboðin: „Ef þið fallið þá getið þið hvergi falið ykkur“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×