Innlent

Heildar­greiðsla vegna einka­rekinna dvalar- og hjúkrunar­heimila 24,8 milljarðar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Allir samningar við einkaaðila fara í gegnum Sjúkratryggingar.
Allir samningar við einkaaðila fara í gegnum Sjúkratryggingar. Vísir/Egill

Áætluð heildargreiðsla árið 2022 vegna reksturs dvalar- og hjúkrunarheimila sem rekin eru af einkaaðilum með samningum við Sjúkratryggingar Íslands er 24,8 milljarðar króna. Þessi þjónusta er ekki veitt án samninga við hið opinbera.

Þetta kemur fram í svörum heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur, varaþingmanns Vinstri grænna, um samninga við einkaaðila vegna reksturs dvalar- og hjúkrunarheimila.

Jana spurði meðal um umfang samninga hins opinbera vegna yfirtöku Heilsuverndar á rekstri Vífilstaða, þar með talið leiguhúsnæðis.

Í svarinu segir að þjónustukaup Sjúkratrygginga Íslands á rekstri Vífilstaða árið 2023 séu 854,8 milljónir króna á verðlagi ársins 2022. Innifalin séu öll gjöld og annar kostnaður verksala vegna þjónustunnar, þar með talinn rekstur húsnæðisins.

„Fyrst um sinn er stefnt að því að Vífilsstaðir muni áfram styðja við Landspítalann og þá miklu þörf sem er í þjóðfélaginu fyrir tímabundin úrræði meðan beðið er varanlegrar búsetu á hjúkrunarheimili. Til að byrja með verður því óbreyttur fjöldi svokallaðra biðrýma á Vífilsstöðum,“ segir í svarinu.

Þá segir einnig að áætlað leigugjald Heilsuverndar vegna Vífilstaða sé 115,4 milljónir króna á ári en það sé ekki innifalið í þjónustukaupum SÍ. Ríkið sé eigandi húsnæðisins og fái leiguna greidda.

Hvað varðar leigu á húsnæði fái ekkert hjúkrunarheimili greidda húsaleigu, almennt séð.

Svar ráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×