Erlent

Á­kærður fyrir á­reitni á leið frá Ís­landi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Celebrity Summit er tíður gestur við strendur Íslands.
Celebrity Summit er tíður gestur við strendur Íslands. Getty

Bandarískur karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið ákærður fyrir kynferðislega áreitni í garð starfsmanns skemmtiferðaskips, um borð í skipinu, sem var á leið frá Íslandi til Bandaríkjanna.

Bandarískir fjölmiðlar fjalla um málið. Þar segir að atvikið hafi átt sér stað snemma morguns þann 30. ágúst síðastliðinn um borð í skemmtiferðaskipinu Celebrity Summit.

Samkvæmt ákæru málsins á umræddur maður að hafa áreitt starfsmanns skipsins, sem var við störf að þrífa klósett skipsins. Kemur fram í ákærunni að skipið hafi verið á leið til Boston í Bandaríkjunum frá Reykjavík, er atvikið átti sér stað.

Er maðurinn sagður hafa nálgast starfsmanninn og gripið í handlegg hans. Starfsmaðurinn er þá sagður hafa spurt umræddan mann hvað hann væri að gera.

Maðurinn er því næst sagður hafa gripið um kynfæri starfsmannsins utan yfir buxur hans með báðum höndum, og viðhaft kynferðisleg ummæli.

Starfsmaðurinn færði sig frá manninum sem einnig er sagður hafa beðið starfsmanninn afsökunar og að segja engum frá atvikinu.

Maðurinn var handtekinn eftir að skipið kom til hafnar í Boston. Hefur nú verið tekin ákvörðun um að ákæra hann fyrir kynferðislega áreitni, sem fyrr segir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×