Fótbolti

Liverpool gæti flýtt kaupum á Neves til þess að hressa upp á miðjuna

Hjörvar Ólafsson skrifar
Ruben Neves ber fyrirliðabandið hjá Wolves. 
Ruben Neves ber fyrirliðabandið hjá Wolves.  Vísir/Getty

Forráðamenn enska fótboltafélagsins Liverpool leiða hugann að því að festa kaup á portúgalska miðvallarleikmanninum Ruben Neves í janúarglugganum til þess að ferskja upp á miðjuspilið hjá liðinu. 

Þetta kemur fram í frétt Sunday Mirror en þar segir að Jürgen Kloppi hafi áður látið hafa eftir sér að Cody Gakpo verði eini leikmaðurinn sem Liverpool kaupi í janúar. 

Klopp er hins vegar mikill aðdáandi Neves að sögn enska miðilsins og svo gæti farið að þýski knattspynustjórinn fari þess á leit við stjórn félagsins að miðsvæðið hjá liðinu verði bólstrað með Portúgalanum á næstu dögum. 

Eftir 3-0 tap Liverpool gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í gær sagði Klopp frammistöðu liðsins í þeim leik vera þá verstu síðan hann tók við stjórnartaumunum hjá liðinu árið 2015. Klopp gat ekki falið pirring sinn með stöðu mála hvað varðar spilamennsku liðsins undanfarnar vikur. 

Fabinho, Thiago Alcantara og Jordan Henderson hófu leik inni á miðjunni hjá Liverpool í ósigrinum gegn Brighton í gær en Naby Keita leysti Fabinho af hólmi og Harvey Elliott kom inná fyrir Henderson. 

Liverpool situr í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 28 stig eftir 18 leiki. Liðið hefur fengið á sig 25 mörk í þessum 18 deildarleikjum.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×