Fótbolti

Sonur Ronaldinho til reynslu hjá unglingaliði Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldinho fagnar marki með Eið Smára Guðjohnsen í leik með Barcelona eftir að hafa átt stoðsendinguna á íslenska framherjann.
Ronaldinho fagnar marki með Eið Smára Guðjohnsen í leik með Barcelona eftir að hafa átt stoðsendinguna á íslenska framherjann. Getty/Harry How/

Ronaldinho var tvisvar kosinn besti fótboltamaður í heimi sem leikmaður spænska stórliðsins Barcelona og nú reynir sonur hans að feta í fótspor hans.

Joao Mendes, sautján ára sonur Ronaldinho, er nú á reynslu hjá nítján ára liði Barcelona. Hann er ekki kominn með samning enn þá en fær tíma til að sanna sig.

ESPN hefur heimildir fyrir því að strákurinn sé kominn til Barcelona og með honum nokkrir fjölskyldumeðlimir.

Joao Mendes er fæddur árið 2005 og er eina barn Ronaldinho. Hann er með tvöfalt ríkisfang því hann á brasilíska foreldra en er fæddur á Spáni.

Joao Mendes er örfættur framherji sem getur spilað alls staðar í fremstu víglínu.

Frændi hans Roberto de Assis Moreira, sér um hans mál utan vallar en það gerði hann líka þegar Ronaldinho var að spila.

Heimildarmaður ESPN talaði um þolinmæði og það væri engin pressa á að taka einhverja ákvörðun strax. Hann sagði að það tæki alltaf tíma að venjast aðstæðum eftir að hafa flutt frá Suður-Ameríku til Spánar.

Ronaldinho spilaði í fimm ár með Barcelona frá 2003 til 2008. Hann vann Meistaradeildina á þeim tíma (2006) og tvo spænska meistaratitla (2005 og 2006). Ronaldinho var líka kosinn besti fótboltamaður heims af FIFA 2004 og 2005 og fékk Gullhnöttinn 2005.

Eftir tíma sinn hjá Barcelona fór Ronaldinho til ítalska félagsins AC Milan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×