Fótbolti

Há­sæti Pele er hér eftir á fót­bolta­leik­vangi í Mexíkó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Edson Arantes Do Nascimento eða Pele eins og við þekkjum hann best er hér borinn um Azteca leikvanginn í Mexíkóborg í júní 1970 eftir að hann varð heimsmeistari í þriðja og síðasta skiptið. Pele skoraði fyrsta mark leiksins og gaf einnig tvær stoðsendingar í 4-1 sigri á Ítalíu.
Edson Arantes Do Nascimento eða Pele eins og við þekkjum hann best er hér borinn um Azteca leikvanginn í Mexíkóborg í júní 1970 eftir að hann varð heimsmeistari í þriðja og síðasta skiptið. Pele skoraði fyrsta mark leiksins og gaf einnig tvær stoðsendingar í 4-1 sigri á Ítalíu. Getty/Alessandro Sabattini

Mexíkóska félagið Pachuca heiðraði brasilísku knattspyrnugoðsögnina Pele með sérstökum hætti í vikunni.

Pele lést 29. desember síðastliðinn, 82 ára gamall, eftir glímu við krabbamein.

Margir hafa heiðrað þrefalda heimsmeistarann síðan enda einn allra besti fótboltamaður sögunnar og frábær sendiherra fyrir fótboltann út um allan heim.

Fyrir 5-1 heimasigur Pachuca á Puebla í mexíkósku deildinni á mánudagskvöldið þá vígði forseti Pachuca, Jesus Martinez, nýtt sæti í heiðursstúkunni á Hidalgo leikvangi félagsins.

Hér er um að ræða hásæti merkt Pele, veldisstóll að þeirra mati besta fótboltamanns allra tíma.

„Pláss fyrir hásæti kóngsins, þess besta í sögunni,“ sagði við mynd af stólnum á Twitter-síðu Pachuca.

Hásæti Pele er fyrir neðan heiðursstúkuna sem er ætluð fyrir fulltrúa Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, á leikjum liðsins.

Fyrir leikinn þá gengu leikmenn Pachuca liðsins inn á völlinn í brasilískum landsliðsbúningnum og myndir af Pele voru sýndar á skjáum vallarins.

Pele ferðaðist til Pachuca árið 2001 eftir að einn af leikvöngum félagsins var nefndur eftir honum. Þremur árum síðar mætti hann þegar Hidalgo leikvangurinn opnaði á ný eftir miklar endurbætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×