Fótbolti

Hörður og félagar misstigu sig í toppbaráttunni | Viðar skoraði í sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hörður Björgvin og félagar tróna enn á toppi grísku deildarinnar þrátt fyrir tap í toppslagnum í kvöld.
Hörður Björgvin og félagar tróna enn á toppi grísku deildarinnar þrátt fyrir tap í toppslagnum í kvöld. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Hörður Björgvin Magnússon og félagar hans í Panathinaikos þurftu að sætta sig við 1-0 tap er liðið heimsótti AEK Athens í toppslag grísku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Fyrr í dag skoraði Viðar Örn Kjartansson fyrra mark Atromitos í 2-0 sigri gegn Ionikos í sömu deild.

Hörður og félagar höfðu sjö stiga forskot á AEK Athens sem situr í öðru sæti deildarinnar fyrir leik kvöldsins og gátu liðsmenn Panathinaikos því komið sér í ansi góða stöðu á toppnum með sigri.

Fór það þó svo að það voru heimamenn í AEK sem höfðu betur, 1-0, og munurinn á liðunum því kominn niður í fjögur stig. Hörður og félagar hafa nú aðeins unnið einn af seinustu fjórum deildarleikjum sínum og ljóst að liðið þarf að snúa genginu við til að sigla gríska meistaratitlinum heim.

Þá var Viðar Örn Kjartansson á skotskónum fyrir Atromitos fyrr í dag þegar hann skoraði fyrra mark liðsins í 2-0 sigri gegn Ionikos. Viðar kom liðinu í forystu strax á fjórðu mínútu með marki af vítapunktinum.

Viðar og félagar sitja nú í sjöunda sæti deildarinnar með 22 stig eftir 17 leiki, en Ionikos situr á botninum með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×