Fótbolti

Gianluca Vialli látinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gianluca Vialli, 1964-2023.
Gianluca Vialli, 1964-2023. getty/Emmanuele Ciancaglini

Gianluca Vialli, sem var einn besti framherji heims á sínum tíma, er látinn eftir baráttu við krabbamein í brisi. Hann var 58 ára.

Vialli greindist upphaflega með krabbamein 2018, taldi sig hafa losnað við það 2020 en það tók sig svo aftur upp ári seinna. Baráttu hans við meinið lauk svo í dag.

Vialli hóf ferilinn með Cremonese en gekk í raðir Sampdoria 1984. Þar lék hann í átta ár og myndaði eftirminnilegt framherjapar með Roberto Mancini. Þeir leiddu Sampdoria til fyrsta og eina Ítalíumeistaratitils liðsins 1991. Ári seinna komst Sampdoria í úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið tapaði fyrir Barcelona, 1-0.

Vialli fór til Juventus 1992 og varð ítalskur meistari með liðinu 1995 auk þess að vinna Meistaradeildina með því 1996 og Evrópukeppni félagsliða 1993.

Eftir það fór Vialli til Englands og gekk til liðs við Chelsea. Í febrúar 1998 var hann svo ráðinn spilandi þjálfari Chelsea. Hann var hjá Chelsea til 2000. Á tíma sínum hjá félaginu vann hann ensku bikarkeppnina, deildabikarinn og Evrópukeppni félagsliða. Vialli stýrði svo Watford í eitt ár. Hann var síðan í þjálfarateymi ítalska landsliðsins sem vann EM 2021.

Vialli lék 59 landsleiki fyrir Ítalíu og skoraði sextán mörk. Hann var í ítalska liðinu sem varð í 3. sæti á HM á heimavelli 1990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×