Innlent

Meirihluti landsmanna vill fleiri vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Búrfellsvirkjun.
Búrfellsvirkjun. Mynd/Landsvirkjun

Sextíu og sex prósent Íslendinga eru á því að fleiri vatnafls- og jarðvarmavirkjanir þurfi að reisa hér á landi, ef marka má nýja könnun.

Prósent kannaði hug landsmanna til virkjanamála og greinir Fréttablaðið frá niðurstöðunum í dag. Eins og áður sagði er mikill meirihluti fyrir fleiri virkjunum af þessu tagi en þar af telja tuttugu og átta prósent þörf á mun fleiri virkjunum. Afar fáir eru á því að fækka ætti slíkum virkjunum en um fjórðungur, eða tuttugu og sex prósent svaraði hvorki- né.

Mikill munur er á afstöðu fólks til málsins eftir kyni. Þannig eru sjötíu og fjögur prósent karla á því að meira ætti að virkja en fimmtíu og sex prósent kvenna eru þeirrar skoðunar. Þá er landsbyggðarfólk viljugra til að virkja meira en þau sem eru af höfuðborgarsvæðinu. Stuðningurinn stighækkar einnig með aldri.

Ef litið er til stjórnmálaskoðana kemur í ljós að mestur stuðningur við fleiri virkjanir er hjá kjósendum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Miðflokksins. Þá vekur nokkra athygli að nærri helmingur kjósenda VG vill fleiri virkjanir og þrjátíu og sjö prósent kjósenda flokksins svara hvorki né. Aðeins þrettán prósent vilja síðan fækka virkjunum landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×