Fótbolti

Ronaldo fékk ekki ósk sína uppfyllta

Smári Jökull Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo sést hér í leik með Portúgal á heimsmeistaramótinu.
Cristiano Ronaldo sést hér í leik með Portúgal á heimsmeistaramótinu. Vísir/Getty

Cristiano Ronaldo er nýgenginn til liðs við Al Nassr í Sádi Arabíu þar sem hann fær 200 milljónir dollara í árslaun. Ronaldo vildi endurnýja kynni sín við gamla liðsfélaga en varð ekki að ósk sinni.

Cristiano Ronaldo hefur verið eitt helsta fréttaefni íþróttaheimsins síðasta mánuðinn, allt frá því að viðtal Piers Morgan við Portúgalann var birt. Í kjölfarið rifti Manchester United samningi sínum við hann og á fimmtudaginn var staðfest að Ronaldo muni ganga í raðir Al Nassr í Sádi Arabíu þar sem hann skrifar undir tveggja og hálfs árs samning.

Ronaldo er orðinn 37 ára gamall og mun spila í Al Nassr fram á sumarið 2025. Á þessum tíma er talið að hann fái 500 milljónir dollara í laun eða 200 milljónir á ári sem eru hvorki meira né minna en 28 milljarðar króna.

Þýska blaðið Bild greinir hins vegar frá því í dag að það hafi ekki verið efst á óskalista Ronaldo að ganga til liðs við Al Nassr.

Hann hafi helst viljað snúa aftur til Real Madrid þar sem hann lék frá 2009-2018. Á þeim tíma vann hann fjóra meistaradeildartitla og varð markahæsti leikmaður félagsins frá upphafi.

Spænska stórliðið hafði hins vegar lítinn áhuga á að taka á móti Ronaldo á nýjan leik. Ástæðurnar voru aldur og launakröfur Ronaldo og jafnvel þó aðeins hafi verið um að ræða hálfs árs samning þá passaði Ronaldo ekki inn í áætlanir Real Madrid. Þá hefði hann verið alltof dýr miðað við það hlutverk sem hann hefði fengið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×