Fótbolti

Segist ekki vita hvort Fernandez hafi spilað sinn síðasta leik fyrir Ben­fi­ca

Smári Jökull Jónsson skrifar
Fernandez var í lykilhlutverki hjá Argentínu á heimsmeistaramótinu í Katar.
Fernandez var í lykilhlutverki hjá Argentínu á heimsmeistaramótinu í Katar. Vísir/Getty

Roger Schmidt, þjálfari Benfica, viðurkennir að Enzo Fernandez gæti yfirgefið félagið í janúar. Fernandez hefur verið sterklega orðaður við Chelsea en Argentínumaðurinn var valinn besti ungi leikmaðurinn á heimsmeistaramótinu í Katar.

Strax eftir að heimsmeistaramótinu lauk var Liverpool sagt áhugasamt um að fá Fernandez til að styrkja miðsvæðið hjá sér en síðustu daga hefur nafn Chelsea sífellt oftar verið nefnt í umræðunni.

Í vikunni var greint frá því að Lundúnaliðið væri búið að leggja fram tilboð en fram hefur komið að Benfica muni ekki leyfa Fernandez að fara nema eitthvað lið greiði uppsett verð samkvæmt samningi, 105 milljónir punda.

Eftir leik Benfica og Braga þann 30.desember viðurkenndi Roger Schmidt, þjálfari Benfica, að Fernandez gæti yfirgefið liðið í janúar.

„Ég veit ekki hvort þetta var síðasti leikur Enzo. Mér finnst hann frábær leikmaður, síðan hann kom til Benfica hefur hann leikið frábærlega. Sem einstaklingur hefur hann tengst félaginu algjörlega.“

„Eins og ég sagði fyrir leikinn, stundum gerast hlutir og leikmenn þurfa að taka ákvörðun. Við sjáum hvað gerist á næstu vikum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×