Innlent

Lög­reglan hækkar við­búnaðar­­stig

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Ákvörðunin er tekin af embætti ríkislögreglustjóra.
Ákvörðunin er tekin af embætti ríkislögreglustjóra. Vísir/Egill

Viðbúnaðarstig lögreglu var hækkað 13. desember síðastliðinn í kjölfar úrskurðar Landsréttar um að sleppa skyldi tveimur mönnum úr gæsluvarðhaldi sem grunaðir eru um skipulagningu hryðjuverka. Viðbúnaðarstigið hefur verið hækkað úr A í B og hafa kvarðar lögreglunnar verið uppfærðir til samræmis við Norðurlöndin. 

Í fréttatilkynningu lögreglunnar kemur fram að viðbúnaðarstigið B merki aukinn viðbúnað og að vísbendingar séu um að öryggisógnir séu til staðar þó ekki þurfi að koma til sérstakra lögregluaðgerða eða neyðarráðstafana. 

Einnig kemur fram að samráð sé haft við önnur stjórnvöld og viðbragðsaðila eftir þörfum og farið yfir fyrirfram skipulögð vinnubrögð. Þá eykur lögreglan eftirlit með þeim stöðum eða svæðum sem ástæða þykir til að vakta sérstaklega. 

Breytingar á hættustigum vegna hryðjuverka - Ísland á þriðja stigi

Einnig hafa komið til breytingar á hættustigum vegna hryðjuverka sem samræmir verklag íslensku lögreglunnar og annarra lögregluembætta í nágrannalöndunum. Á Íslandi hefur hingað til verið notast við fjögurra stiga kvarða en nú hefur verið tekinn upp fimm stiga kvarði. Það er þó tekið fram að þetta tengist ekki viðbúnaðinum sem var aukinn 13. desember síðastliðinn. 

Hættustigin fimm eru: Lágmarks ógn, takmörkuð ógn, aukin ógn, alvarleg ógn og mjög alvarleg ógn. Ísland telst á þriðja stigi núna en það er greiningardeild ríkislögreglustjóra sem metur hættustig vegna hryðjuverka. Þriðja stigið, sem er aukin ógn, þýðir að til staðar er ásetningur og/eða geta og hugsanleg skipulagning hryðjuverka. 

Hættustigin fimm.

Ákvarðanir um viðbúnaðarstig sem og ákvarðanir um hættustig vegna hryðjuverka á Íslandi eru byggðar á fyrirliggjandi upplýsingum. Þær upplýsingar eru stöðugt metnar og yfirfarnar, eins og segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×