Fótbolti

United og Arsenal í bestri stöðu til að fá Félix

Valur Páll Eiríksson skrifar
Útlit er fyrir að Félix sé á leið í ensku úrvalsdeildina.
Útlit er fyrir að Félix sé á leið í ensku úrvalsdeildina. Getty Images

Manchester United og Arsenal leiða kapphlaupið um undirskrift Portúgalans João Félix sem er á förum frá Atlético Madrid. Chelsea sækist einnig eftir kappanum.

Spænskir miðlar greina frá því að United og Arsenal séu skrefi á undan öðrum liðum og séu líklegastir kostir Félix. Hann lenti upp á kant við Diego Simeone, þjálfara Atlético, og ljóst að hann yfirgefur höfuðborg Spánar í janúar.

Atlético borgaði fúlgur fjár fyrir Félix árið 2019, um 125 milljónir evra, sem uppeldisfélag hans Benfica í Portúgal fékk í bankann.

Ljóst er að félagið mun tapa peningum á sölu en Félix hefur, þrátt fyrir fína frammistöðu, ekki staðið undir geigvænlegu kaupverði. Atlético er talið vilja 100 milljónir evra fyrir kauða, hið minnsta, en það er upphæð sem flest félög eiga erfitt með að skilja við á miðju tímabili.

Líklegast þykir því að Atlético láni Félix út og rukki fyrir um níu milljónir evra, auk alls hans launakostnaðar á lánstímanum. Því þurfa Arsenal og Manchester United, eða Chelsea, að punga út til að klófesta Félix í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×