Innlent

Enn ein lægðin hrellir lands­­menn

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Myndin er af aðgerðum björgunarsveitarinnar Víkverja í Vík í Mýrdal á aðfangadag.
Myndin er af aðgerðum björgunarsveitarinnar Víkverja í Vík í Mýrdal á aðfangadag. SIGURÐUR PÉTUR JÓHANNSSON

„Í kvöld kemur enn ein kalda smálægðin úr vestri og mun hrella okkur með snjókomu og skafrenningi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Mest snjóar vestantil í kvöld og á Suður- og Suðausturlandi.

Mesta úrkoman verður fyrir norðan en minni ofankoma verður á Suður- og Vesturlandi. Í dag verður minnkandi norðaustlæg átt en él á norðaustanverðu landinu. Það kólnar í veðri og frost á bilinu 3 til 16 stig, mildast við suðurströndina. Vindur á bilinu 10 til 18 metrar á sekúndu.

Á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir hægri austlægri átt og björtu veðri fyrri part dags en þykknar upp seinnipartinn. Frost á bilinu 5 til 10 stig. Seint í kvöld gætu höfuðborgarbúar átt von á snjókomu og suðaustan 10 til 15 metrum á sekúndu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á morgun:

Austlæg átt, víða 8-15. Snjókoma suðaustantil og síðar á Austfjörðum, en annars él. Norðan 10-18 um vestanvert landið um kvöldið, hvassast á Vestfjörðum og éljagangur, en styttir smám saman upp og léttir til syðra. Hiti breytist lítið.

Á miðvikudag:

Minnkandi norðaustanátt, 5-13 m/s síðdegis. Víða él en þurrt og bjart að mestu suðvestantil. Frost 3 til 12 stig.

Á fimmtudag og föstudag:

Norðlæg átt 5-13 en 10-18 m/s um tíma austanlands. Él, einkum norðaustantil en úrkomulítið sunnan heiða. Áfram kalt í veðri.

Á laugardag (gamlársdagur):

Norðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og þurrt að kalla en stíf norðvestanátt og él á norðaustanverðu landinu. Talsvert frost.

Á sunnudag (nýársdagur):

Útlit fyrir breytilega átt með lítilsháttar éljum á víð og dreif. Frost 5 til 18 stig og kaldast inn til landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×