Innlent

Virti ekki lokanir og þverar þjóð­veginn

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Mjög mikill snjór er á vegum og lítið dugar að moka vegna skafrennings.
Mjög mikill snjór er á vegum og lítið dugar að moka vegna skafrennings. Aðsend

Rútubílstjóri virti ekki lokanir og festi rútu á þjóðveginum við Pétursey, austan við Sólheimasand í Vestur-Skaftafellssýslu seinnipartinn í dag. Rútan situr enn föst og stirð samskipti hafa verið á milli björgunarsveitar og bílstjóra rútunnar. 

Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir í samtali við fréttastofu að mikið bras hafi verið að ná rútunni aftur upp á veginn. Um borð voru þrjátíu erlendir ferðamenn. 

Fleiri ökumenn, sem ekki virtu lokanir, festust á svipuðum slóðum og hafa björgunarsveitarmenn staðið í ströngu við að losa bíla. Jón Þór segir að blessunarlega hafi flestir ökumenn þó virt lokanir í dag. Fáir hafi verið á ferli.

Hringveginum milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs var lokað í morgun og ekki hefur staðið til að opna hann fyrr en á morgun. Gul viðvörun er í gildi á svæðinu vegna hvassviðris og snjókomu. Lokunin nær alla leið frá Seljalandsfossi að Kirkjubæjarklaustri.

Á vef Ríkisútvarpsins er greint frá því að samskipti við bílstjóra rútunnar, í gegnum síma, hafi gengið afar illa. Stefnt sé að því að koma stórvirkum vinnuvélum á staðinn sem fyrst.

Uppfært klukkan 17:29 með upplýsingum um að rútan sitji enn föst.


Tengdar fréttir

Víða ó­fært og vegir lokaðir

Víða er ófært á landinu og vegir lokaðir. Gular viðvaranir eru í gildi á Suðurlandi, Austfjörðum og Austurlandi að Glettingi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×