Fótbolti

Real Madrid bjartsýnt á að vinna kapphlaupið um Bellingham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jude Bellingham er gríðarlega eftirsóttur.
Jude Bellingham er gríðarlega eftirsóttur. getty/Richard Heathcote

Forráðamenn Real Madrid eru bjartsýnir á að vinna kapphlaupið um enska landsliðsmanninn Jude Bellingham.

Hinn nítján ára Bellingham er einn eftirsóttasti leikmaður heims. Hann hefur leikið með Borussia Dortmund frá 2020 en búist er við því að hann verði seldur frá liðinu í sumar.

Bellingham hefur verið sterklega orðaður við Liverpool en nú virðist Real Madrid vera komið á fullt í baráttuna um miðjumanninn öfluga. Og samkvæmt enskum fjölmiðlum eru Spánar- og Evrópumeistararnir mjög bjartsýnir á að vinna kapphlaupið um Bellingham.

Madrídingar eru vel settir með miðjumenn. Þeir Luka Modric og Toni Kroos verða ekkert yngri og Casemiro er farinn en Real Madrid brást við því með því að kaupa Frakkanna ungu Eduardo Camavinga og Aurelien Tchouameni og dreymir nú um að bæta Bellingham í hóp sinn.

Bellingham lék vel með enska landsliðinu á HM. Englendingar komust í átta liða úrslit en töpuðu þar fyrir Frökkum, 2-1. Þrátt fyrir að vera ekki enn orðinn tvítugur hefur Bellingham leikið 22 landsleiki og skorað eitt mark. Það kom í 6-2 sigrinum á Íran á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×