Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag og byggt á upplýsingum frá borgaryfirvöldum.
Þar segir að ef gengið sé út frá því að lóðaverð á íbúð sé um 10 milljónir, sem sé raunhæft í ljósi verðbólgu og verðhækkana, sé verðmæti lóðanna ellefu á bilinu 7 til 8 milljarðar. Við það bætist mögulega tekjur vegna atvinnuhúsnæðis á jarðhæð og bílakjallara.
Í umfjöllun Morgunblaðsins er vikið að þeirri gagnrýni að borgaryfirvöld hafi afhent olíufélögunum verðmæti með því að heimila byggingu íbúða á lóðunum. Ívar Örn Ívarsson, deildarstjóri lögfræðideildar á skrifstofu borgarstjóra, segir samningana hins vegar hagkvæma fyrir borgina.
Leigusamningar um lóðirnar séu gjarnan til langs tíma og borgin þyrfti annars að greiða bætur fyrir lokun bensínstöðva á samningstímanum.
„Það hljómar kannski illa þegar málinu er stillt upp þannig að borgin sé að afhenda einhver verðmæti en á móti kemur að borgin nær markmiðum sínum um fækkun bensínstöðva og uppbyggingu íbúða,“ er haft eftir Ívari.