Erlent

Búa sig undir að kveðja jarð­skjálfta­mælinn á Mars

Kjartan Kjartansson skrifar
Útlit er fyrir að Insight sé þegar orðinn marsneska rykinu að bráð.
Útlit er fyrir að Insight sé þegar orðinn marsneska rykinu að bráð. NASA

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA hefur misst samband við lendingarfarið Insight á reikistjörnunni Mars. Orka geimfarsins hefur farið dvínandi undanfarna mánuði og er nú gert ráð fyrir að dagar þess séu taldir.

Insight svaraði ekki kalli leiðangursstjórnenda á jörðinni á sunnudag en síðast náðist samband við farið fimmtudaginn 15. desember. Í tilkynningu á vefsíðu NASA segir að kraftur Insight hafi farið þverrandi undanfarna mánuði eins og búist var við. Ekki liggi fyrir hvað olli því að það missti aflið nú. Tilraunir verði áfram gerðar til þess að ná sambandi.

„Orkan mín er að þrotum komin þannig að þetta gæti verið síðasta myndin sem ég sent. Ekki hafa áhyggjur af mér samt, tími minn hér hefur verið bæði afkastamikill og friðsæll. Ef ég get haldið áfram að tala við leiðangursteymið mitt þá geri ég það en ég fer að skrá mig út héðan bráðum. Takk fyrir að fylgja mér eftir,“ sagði í tilfinningasömu tísti á Twitter-reikningi Insight-leiðangursins í gær.

Á mynd sem NASA birti á samfélagsmiðlum má sjá hluta geimfarsins þakinn rauðleitu ryki. Líkt og mörg önnur lendingarfar á Mars er Insight knúið sólarorku og því er líklegt að það hafi verið rykið á sólarsellunum sem lamaði það á endanum. Opportunity, könnunarjeppi NASA, hlaut sömu örlög eftir fimmtán ára ferðalag um rauðu reikistjörnuna árið 2019.

Insight lenti á Mars 26. nóvember árið 2018 en geimfarinu var ætlað að kanna jarðvirkni og innviði reikistjörnunnar. Farið náði aðalvísindamarkmiðum sínum á fyrstu tveimur jarðárunum þar. Alls hefur Insight numið fleiri en 1.300 Marsskjálfta og varpað ljósi á loftsteinaárekstra og innri samsetningu Mars.

Gögn frá Insight voru meðal annars notuð til þess að bera kennsl á mögulega virkan möttulstrók undir yfirborði reikistjörnunnar. Sú uppgötvun þykir marka tímamót þar sem Mars hefur verið talinn jarðfræðilega óvirk reikistjarna til þessa.


Tengdar fréttir

Fundu merki um að Mars sé enn jarð­fræði­lega virkur

Athuganir á reikistjörnunni Mars benda til þess að þar sé að finna virkan möttulstrók undir yfirborðinu. Reikistjarnan hefur fram að þessu verið talin jarðfræðilega óvirk en strókurinn sem menn telja sig hafa fundið gæti knúið jarðskjálfta, misgengishreyfingar og jafnvel eldgos.

Mars­skjálfta­mælir nam stóran loft­steina­á­rekstur

Tvíeyki bandarískra geimkönnunarfara náðu í sameiningu að verða vitni að því þegar stór loftsteinagígur myndaðist á yfirborði Mars í fyrra. Það sem árekturinn leiddi í ljós gætti haft þýðingu fyrir mannaða leiðangra til reikistjörnunnar í framtíðinni.

Jarðskjálftamælir á Mars verður rykinu að bráð

Útlit er fyrir að bandaríska geimfarið Insight á Mars syngi sitt síðasta í sumar þegar rafhlöður þess tæmast. Farið missir nú orku vegna ryks sem safnast hefur fyrir á sólarsellum þess.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×