Fótbolti

Hulk sprengir nánast fötin utan af sér

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hulk sleppir aldrei fótadegi.
Hulk sleppir aldrei fótadegi.

Þrátt fyrir að vera orðinn 36 ára hefur brasilíski fótboltamaðurinn Hulk sjaldan verið vígalegri.

Hulk er þekktur fyrir sín þrumuskot og mikla hreysti enda minnir hann um margt á græna nafna sinn úr Marvel teiknimyndasögunum.

Hulk leikur nú með Atlético Mineiro í heimalandinu. Félagið birti myndir af kappanum í þreksalnum þar sem hann undirbjó sig fyrir tímabilið sem framundan er.

Sem fyrr sagði er Hulk ansi vígalegur en fötin virðast nánast við það að rifna af honum, svo stórir eru vöðvarnir.

Givanildo Vieira de Sousa, eins og Hulk heitir fullu nafni, sneri aftur til heimalandsins í fyrra og gekk í raðir Atlético Mineiro. Hann hefur skorað 65 mörk í 114 leikjum fyrir liðið.

Hulk freistaði ungur gæfunnar utan Brasilíu. Fyrst lék hann í Japan en fór svo til Porto í Portúgal 2008 og lék þar í fjögur ár. Því næst var hann í fjögur ár hjá Zenit í St. Pétursborg áður en hann fór til Kína og gekk í raðir Shanghai SIPG. Hulk lék 49 landsleiki fyrir Brasilíu og skoraði ellefu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×