Fótbolti

Samkvæmt reglunum átti síðasta markið hans Messi aldrei að vera dæmt gilt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar marki í úrslitaleiknum á móti Frakklandi. Þau urðu tvö en annað þeirra átti kannski aldrei að standa.
Lionel Messi fagnar marki í úrslitaleiknum á móti Frakklandi. Þau urðu tvö en annað þeirra átti kannski aldrei að standa. AP/Francisco Seco

Lionel Messi skoraði tvö mörk í úrslitaleik HM og Argentína vann heimsmeistaratitilinn eftir vítakeppni.

Messi skoraði seinna markið sitt í framlengingu en fljótlega eftir leik fóru sumir að setja spurningarmerki við þetta mark hans.

Samkvæmt ströngustu reglum fótboltans þá átti nefnilega að dæma seinna mark Lionels Messi í úrslitaleiknum ógilt.

Franska blaðið L´Equipe skrifaði um þetta eftir leikinn og birti meðal annars mynd af því þegar boltinn er á leiðinni yfir línuna og það má sjá varamenn Argentínu vera komna inn á leikvöllinn í fjarska.

Ástæðan er að tveir varamenn Argentínu voru komnir inn á leikvöllinn til að fagna markinu áður en Messi kom boltanum yfir línuna.

Þetta fór fram hjá myndbandadómurunum eða þeim fannst ekki ástæða til að beita reglubókinni til að dæma markið af.

Samkvæmt grein í reglubók IFAB þá verður dómarinn að dæma mark af ef einhver fer ólöglega inn á völlinn hvort sem það sé leikmaður, varamaður, leikmaður sem hefur verið skipt út af, leikmaður sem hefur verið rekinn af velli eða þjálfari liðsins sem skoraði.

Í stað marksins þá hefði dómarinn átt að dæma Frökkum aukaspyrnu þar sem varamenn Argentínu hlupu inn á völlinn.

Argentínumenn sluppu með skrekkinn en Frakkar náðu síðan að jafna metin og tryggja sér vítakeppni. Þar voru Argentínumenn sterkari á taugum og unnu sinn fyrsta heimsmeistaratitil frá 1986.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×