Fótbolti

Karim Benzema hættur í franska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karim Benzema er fimmti markahæsti landsliðsmaður Frakka frá upphafi.
Karim Benzema er fimmti markahæsti landsliðsmaður Frakka frá upphafi. Getty/Michael Regan

Karim Benzema tilkynnti það í dag að hann hefur spilað sinn síðasta landsleik fyrir Frakkland.

Þessi 35 ára gamli framherji var valinn besti knattspyrnumaður ársins og fékk að launum Gullhnöttinn.

Benzema var valinn í HM-hóp Frakka en meiddist skömmu fyrir mót og fór ekki með til Katar.

Það virðist hafa verið ákvörðun landsliðsþjálfarans Didier Deschamps að Benzema yrði ekki í kringum hópinn og hann snéri ekki til baka þrátt fyrir að vera búinn að ná sér af meiðslunum.

Orðrómur var um að Benzema kæmi inn fyrir úrslitaleikinn en ekkert var á bak við þær sögusagnir.

Benzema segir í færslu sinni í dag að hann sé stoltur af landsliðsferlinum, bæði því sem gekk vel og líka mistökunum sem gerðu hann að þeim manni sem hann er í dag. Saga hans og landsliðsins segir hann að sé nú fullskrifuð.

Benzema lék alls 97 landsleiki og skoraði í þeim 37 mörk. Hann er fimmti markahæsti landsliðsmaður Frakka frá upphafi en er nú aðeins einu marki á undan Kylian Mbappé.

Það eru bara Olivier Giroud (53 mörk), Thierry Henry (51), Antoine Griezmann (42) og Michel Platini (41) sem hafa skorað fleiri mörk fyrir franska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×