Fótbolti

Deschamps telur veikindin hafa haft slæm áhrif

Hjörvar Ólafsson skrifar
Didier Deschamps var vitanlega súr í leikslok. 
Didier Deschamps var vitanlega súr í leikslok.  Vísir/Getty

Didier Deschamps, þjálfari franska karlalandsliðsins í fótbolta, sagði veikindin sem herjuðu á franska liðið í aðdraganda úrslitleiks heimsmeistaramótsins sem fram fór í Doha í Katar í dag hafi haft bæði andleg og líkamleg áhrif á leikmenn liðsins.

„Við lentum í vandræðum í undirbúningnum fyrir þennan stóra leik og það hafði mögulega áhrif á leikmenn mína, bæði andlega og líkamlega. Það voru hins vegar allir 100 prósent klárir í slaginn þannig að þetta hafði ekki úrslitaáhrif," sagði Deschamps að leik loknum. 

„Það eru fjórir dagar síðan við spiluðum erfiðan leik án nokkurra lykilleikmanna og milli leikjanna veiktust nokkrir í viðbót. Þetta er engin afsökun fyrir tapinu en gæti skýrt hvers vegna við vorum svona flatir í upphafi leiksins og raunar í öllum fyrri hálfleiknum. Mér fannst við hafa jafn mikla orku og í hinum leikjunum á mótinu," sagði hann enn fremur. 

Samningur Deschamps við franska knattspyrnusambandið rennur út á næstu dögum en hann kveðst ekki hafa ákveðið framtíð sína. „Ég mun ræða við forseta sambandsins í byrjun næsta árs og þó svo að ég við hefðum haft betur í þessum leik þá hefði ég ekki tekið ákvörðun fyrr en eftir þau fundarhöld," sagði franski þjálfarinn sem hefur stýrt Frakklandi í 10 ár og skilað einum heimsmeistaratitli og sigri í Þjóðadeildinni í hús á þeim tíma. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×