Innlent

Nærri 25 þúsund fá ein­greiðslu í tæka tíð fyrir jólin

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Tryggingastofnun greiðir eingreiðsluna út í dag.
Tryggingastofnun greiðir eingreiðsluna út í dag. Vísir/Sigurjón Ólason

Eingreiðsla til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega er greidd út í dag. 24.900 manns hljóta eingreiðsluna. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. 

Þann 14. desember síðastliðinn samþykkti Alþingi að eingreiðsla upp á  60.300 krónur yrði greidd út til öryrkja fyrir jólin. Frumvarpið var samþykkt með 58 atkvæðum. 

Mikil umræða myndaðist um greiðsluna á þingi, sumir kölluðu eftir því að hún yrði lögfest til þess að fólk þyrfti ekki að bíða á milli vonar og ótta fyrir jólin ár hvert. Aðrir óskuðu eftir því að eingreiðslan næði einnig utan um ellilífeyrisþega en Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins talaði sérstaklega fyrir því og lagði fram breytingartillögu þess efnis. Á endanum var tillaga Ingu ekki samþykkt. 

Í samtali við fréttastofu vegna málsins sagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins greiðsluna skipta miklu máli fyrir öryrkja þá sérstaklega í ljósi hækkandi verðlags. Þá hafi fyrirvarinn í ár skipt miklu máli svo fólk geti nýtt greiðsluna í að kaupa mat og jólagjafir í tæka tíð.

Eingreiðslan var þó ekki það eina sem samþykkt var í vikunni er varðaði málefni öryrkja. Frítekjumark atvinnutekna örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega var hækkað úr 110 þúsund krónum upp í 200 þúsund krónur. 

Hækkun frítekjumarksins hefur verið mikið baráttumál í lengri tíma en ÖBÍ hefur barist fyrir breytingunni í heil 14 ár

Með breytingunni hafa öryrkjar möguleika á að vinna í hlutastarfi án þess að útgreiddur lífeyrir þeirra skerðist að miklu leyti. Þetta gerir það að verkum að fólk hefur möguleika á því að afla frekari tekna og ná endum saman en að mati Þuríðar Hörpu eru bæturnar of lágar og á fólk oft erfitt með að ná endum saman. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×