Fótbolti

Treyjan hans Messi er uppseld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það vilja allir komast yfir treyjuna hans Lionels Messi.
Það vilja allir komast yfir treyjuna hans Lionels Messi. AP/Jorge Saenz

Lionel Messi hefur öðrum fremur komið argentínska landsliðinu alla leið í úrslitaleikinn á HM með fimm mörkum og þremur stoðsendingum í sex leikjum.

Instagram/Sportbladet

Það eru allir að tala um Messi og áhuginn á því að eignast treyjuna hans er gríðarlegur. Hann er líka út um allan heim.

Svo mikill að spænska blaðið Marca slær því upp að treyjan hans Messi sé uppseld hvort sem við sé um að tala um Buenos Aires, Madrid eða Doha.

Það skiptir þá engu máli um hvaða stærð við erum að tala. Það vildi svo margir kaupa opinberu argentínsku treyjuna með tíu á bakinu.

Falsaðar treyjur eru líka áberandi á markaðnum og hefur argentínska sambandið fengið kvartanir um slíkt.

Knattspyrnusamband Argentínu gaf frá sér yfirlýsingu í dag um að þeir gætu ekki gert neitt til að auka framleiðslu opinberu treyjanna.

Adidas framleiðir treyjurnar og íþróttavöruframleiðandinn segir að það sé ómögulegt að auka framleiðslu þeirra með svo stuttum fyrirvara.

Adidas er samt á milljón að reyna að framleiða fleiri treyjur fari svo að Argentína vinni Frakkland í úrslitaleik HM á sunnudaginn og verði heimsmeistari í fyrsta sinn í 36 ár eða frá því að Diego Maradona lyfti HM-bikarnum í Mexíkó 1986.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×