Fótbolti

Macron býður Benzema, Kanté og Pogba á úrslitaleikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emmanuel Macron „dabar“ með Paul Pogba eftir að Frakkar urðu heimsmeistarar í Rússlandi 2018.
Emmanuel Macron „dabar“ með Paul Pogba eftir að Frakkar urðu heimsmeistarar í Rússlandi 2018. getty/Michael Regan

Emmanuel Macron Frakklandsforseti vill bjóða meiddum leikmönnum franska landsliðsins á úrslitaleik HM. Frakkland mætir þar Argentínu og með sigri verja Frakkar heimsmeistaratitilinn sem þeir unnu í Rússlandi fyrir fjórum árum.

Meðal leikmanna sem gátu ekki verið með í Katar vegna meiðsla eru Karim Benzema, N'Golo Kanté og Paul Pogba.

Macron vill samt gera vel við þessa leikmenn sem væru undir eðlilegum kringumstæðum líklega byrjunarliðsmenn í franska landsliðinu.

Forsetinn hyggst nefnilega bjóða þeim á úrslitaleikinn á sunnudaginn. Íþróttamálaráðherra Frakklands staðfesti þetta í samtali við Marca og sagðist vona að hægt væri að koma þessu í kring.

Kanté og Pogba meiddust fyrir mótið en Benzema var valinn í HM-hóp Frakklands en meiddist skömmu fyrir fyrsta leik. Hann er hins vegar byrjaður að æfa á nýjan leik, spilaði æfingaleik með Real Madrid í gær og rætt hefur verið um að hann komi inn í franska hópinn fyrir úrslitaleikinn. 

Didier Deschamps, þjálfari Frakka, vildi lítið tjá sig um málið er hann var spurður út í það eftir sigurinn á Marokkóum í undanúrslitum HM. Frakkland vann leikinn, 2-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×