Fótbolti

Englendingar komu ekki tómhentir heim frá Kat(t)ar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dave flatmagar við æfingasvæði enska landsliðsins í Katar.
Dave flatmagar við æfingasvæði enska landsliðsins í Katar. getty/Eddie Keogh

Þótt Englendingar hafi tapað fyrir Frökkum í átta liða úrslitum á HM koma þeir ekki alveg tómhentir heim frá Katar.

Varnarmennirnir og samherjarnir hjá Manchester City, þeir Kyle Walker og John Stones, tóku nefnilega ástfóstri við villikött sem gerði sér reglulega ferð á æfingasvæði enska landsliðsins í Al Wakrah.

Stones nefndi högnann Dave og Walker ákvað að þeir myndu ættleiða hann ef England yrði heimsmeistari. Sá draumur rættist ekki en þeir Stones ákváðu samt að ættleiða Dave.

Hann var fluttur til dýralæknis þar sem hann verður bólusettur og prófaður. Svo tekur við fjögurra vikna sóttkví áður en hann getur farið til Englands.

„Daginn sem við komum mætti Dave. Á hverju einasta kvöldi sat hann þarna og beið eftir matnum sínum,“ sagði Stones um ferfætta vin þeirra Walkers.

Stones og Walker léku báðir allan leikinn þegar England tapaði fyrir Frakklandi, 1-2, á laugardaginn. Þetta er í sjöunda sinn sem Englendingar falla úr leik í átta liða úrslitum á heimsmeistaramótinu, oftar en nokkurt annað lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×