Fótbolti

Argentínu­menn eru nú sigur­strang­legastir á HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margir vilja að Lionel Messi ná loksins að verða heimsmeistari til að kóróna magnaðan feril sinn.
Margir vilja að Lionel Messi ná loksins að verða heimsmeistari til að kóróna magnaðan feril sinn. AP/Jorge Saenz

Eftir að Brasilía og England datt úr keppni á heimsmeistaramótinu í fótbolta í Katar þá þykir argentínska landsliðið líklegast til að fara alla leið og vinna heimsmeistaratitilinn.

Bandaríska tölfræðiþjónustan FiveThirtyEight hefur nú uppfært sigurlíkur þjóðanna eftir átta liða úrslitin.

Argentína og Króatía mætast í fyrri undanúrslitaleiknum annað kvöld og Frakkland og Marokkó spila síðan á miðvikudagskvöldið.

Samkvæmt útreikningum FiveThirtyEight þá eru 64 prósent líkur á sigri Argentínumanna á móti Króatíu og 66 prósent líkur á frönskum sigri á móti Marokkó.

Það eru síðan 37 prósent líkur á því að Argentína verði heimsmeistarar en svo eru 35 prósent líkur á því að heimsmeistarar Frakka verji titilinn. Sextán prósent líkur eru á því að Króatar vinni titilinn og FiveThirtyEight gefur Afríkumönnunum aðeins þrettán prósent sigurlíkur.

Argentínumenn hafa aðeins tvisvar orðið heimsmeistarar og það eru liðin 36 ár síðan þeir unnu síðast undir forystu Diego Maradona á HM í Mexíkó 1986. Þetta er fyrsta heimsmeistarakeppnin eftir lát Maradona og líka síðasta heimsmeistarakeppni Lionel Messi.

Messi hefur verið frábær á mótinu og er næstmarkahæstur með fjögur mörk. Þetta er hans fimmta heimsmeistarakeppni og hann jafnar leikjamet HM í undanúrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×