Fótbolti

Rodrygo bað Neymar afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rodrygo og Neymar í leiknum afdrifaríka á móti Króötum á föstudagskvöldið.
Rodrygo og Neymar í leiknum afdrifaríka á móti Króötum á föstudagskvöldið. AP/Martin Meissner

Brasilíumenn eru enn að jafna sig eftir áfallið á föstudaginn þegar Króatar slógu þá út úr átta liða úrslitum á heimsmeistaramótinu í Katar.

Margir velta fyrir sér hvað hinn þrítugi Neymar ætli að gera en hann fór grátandi af velli í leiknum. Einn liðsfélagi hans vill endilega að hann spili áfram með liðinu og bað hann opinberlega afsökunar á dýrkeyptum mistökum sínum.

Brasilía var sigurstranglegasta liðið í keppninni eftir 4-1 sigur á Suður Kóreu í sextán liða úrslitunum og komust yfir í framlengingunni á móti Króatíu með marki frá Neymar.

Króatar sýndu enn á ný seiglu sína og snilli með því að ná að jafna leikinn þremur mínútum fyrir leikslok. Þeir unnu svo annan leikinn í röð í vítakeppni með því að nýta öll fjögur vítin á meðan Brassarnir klúðruðu tveimur.

Neymar tók ekki víti en það gerði aftur á móti Rodrygo, 21 árs gamall framherji Real Madrid.

Rodrygo tók fyrsta víti Brasilíumanna en Dominik Livakovic varði frá honum og eftir það var á brattann að sækja.

„Ég bið þig afsökunar á öllu og fyrir það að fresta draumnum þínum. Ég vona að þú haldir áfram mðe okkur og við getum fagnað sigri saman,“ sagði Rodrygo við Neymar á samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×