Innlent

„Maður vonar að vöfflurnar komi hér um helgina“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Það fór ágætlega á með þeim Kristjáni Þórði og Halldóri Benjamín fyrr í kvöld.
Það fór ágætlega á með þeim Kristjáni Þórði og Halldóri Benjamín fyrr í kvöld.

Jafnvel þótt samningar tækjust í kvöld á milli samflots VR og iðnaðarmanna við Samtök atvinnulífsins, þyrfti helgina til að klára þá. Það fór ágætlega á með þeim Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni formanni Rafiðnaðarsambands Íslands og Halldóri Benjamín Þorbergssyni framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins fyrr í kvöld þegar fréttastofa Stöðvar 2 tók þá tali.

Atkvæðagreiðsla um SGS-samninginn hófst í dag og stendur til 19. desember. Heimir Már Pétursson fréttamaður Stöðvar 2 hefur fylgst með málinu í allan dag.

„Okkar markmið er það að klára kjarasamninga, við höfum setið hér í húsi í allan dag og erum hér enn. Þetta tekur hins vegar ótrúlega langan tíma og er eitthvað sem við þurfum að vinna með, klára þetta. Vonandi tekst þetta,“ sagði Kristján Þórður aðspurður um hvort samningar myndu takast um helgina.

Þá sagði Halldór Benjamín að línan væri skýr varðandi stefnumörkun kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins.

„Þeir kjarasamningar sem við gerum við stóra hópa eru stefnumarkandi en það breytir því ekki að við erum að vinna með mismunandi hópa og reynum að finna fullnægjandi lausnir.“

Kristján Þórður tók undir það. „Þetta eru mismunandi hópar og mismunandi lausnir sem þarf fyrir hópana og það er auðvitað það sem við erum að glíma við í dag og þessa dagana, að finna lausnina sem hentar þessum hópum.“

Og fer kannski að berast vöffluilmur um húsnæði ríkissáttasemjara nú um helgina?

„Ég var að skoða veðurspána áðan, það á að vera heiðríkja næstu daga og ég hugsa að það viðri vel til kjarasamningsgerðar,“ svaraði Halldór Benjamín og Kristján Þórður tók í sama streng.

„Það er vonandi, við erum í húsi til að semja og maður vonar að vöfflurnar komi hér um helgina.“


Tengdar fréttir

Atkvæðagreiðsla um umtalaðan samning hafin og hljóðið gott

Formenn þriggja félaga innan Starfsgreinasambandsins í ólíkum landshlutum segja jákvætt hljóð í sínu félagsfólki gagnvart kjarasamningnum við Samtök atvinnulífsins. Formaður Eflingar segir samninginn ófullnægjandi en myndi ekki leggjast svo lágt að beita sér fyrir því að einstaka félagsmenn greiddu atkvæði gegn samningnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×