Fótbolti

Brassar lík­legastir til að vinna HM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tekst Brasilíu að vinna HM í sjötta sinn?
Tekst Brasilíu að vinna HM í sjötta sinn? Kenta Harada/Getty Images

Tölfræðiveitan Gracenote hefur haldið utan um líklegasta sigurvegarann frá því ljóst var hvaða þjóðir myndu keppa á HM í fótbolta sem nú fer fram í Katar. Þegar komið er að átta liða úrslitum keppninnar er Brasilía sú þjóð sem er talin líklegust til afreka.

Komin eru 20 ár síðan Brasilía varð síðast heimsmeistari en ef marka má útreikninga Gracenote þarf brasilíska þjóðin ekki að bíða mikið lengur. Sem stendur eru 25 prósent líkur á að Brasilía verði heimsmeistari.

Talið er líklegast að Brasilía og Portúgal mætist í úrslitum en báðar þjóðir unnu stórsigra í 16-liða úrslitum.

Enn á margt eftir að gerast en sem stendur verður að teljast líklegt að Brasilía komist í undanúrslitin. Króatía stendur í vegi þeirra og ef marka má frammistöðu Króata gegn Japan þá ætti leið Brasilíu í undanúrslitin að vera nokkuð greið. 

Aðrir leikir í 8-liða úrslitum eru Portúgal gegn Marokkó, Argentína gegn Hollandi og England gegn Frakklandi.

Líkur hverrar þjóðar í prósentum

  • Brasilía – 25%
  • Argentína – 20%
  • Portúgal – 13%
  • Frakkland – 11%
  • Holland – 11%
  • England – 10%
  • Marokkó – 6%
  • Króatía – 5%

Átta liða úrslit HM hefjast á föstudag með tveimur leikjum og lýkur tveimur dögum síðar með tveimur leikjum til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×