Innlent

Fóru of­fari við lög­legar upp­sagnir og greiða starfs­mönnum bætur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sólveig Anna og Viðar Þorsteinsson fá á baukinn frá héraðsdómi fyrir framkvæmd á uppsögn reyndra starfsmanna hjá Eflingu.
Sólveig Anna og Viðar Þorsteinsson fá á baukinn frá héraðsdómi fyrir framkvæmd á uppsögn reyndra starfsmanna hjá Eflingu. Vísir/Vilhelm

Stéttarfélagið Efling hefur verið dæmt til að greiða þremur fyrrverandi starfsmönnum félagsins samanlagt tæplega þrjár milljónir króna auk málskostnaðar. Dómurinn mat uppsagnir þeirra árið 2018 lögmætar en Efling væri þó skaðabótaskyld vegna bágrar framkomu gagnvart starfsmönnunum þremur.

Elín Hanna Kjartansdóttir, fyrrverandi bókari, Kristjana O. Valgeirsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri, og Anna Lísa Terraza höfðuðu málið. Þeim var öllum sagt upp störfum hjá Eflingu árið 2018 skömmu eftir að Sólveig Anna Jónsdóttir var kjörin formaður stéttarfélagsins.

Sökuðu þær Eflingu um brot á kjarasamningum og gerðu athugasemdir við framkomu forsvarsmanna félagsins, Sólveigar Önnu og Viðars Þorsteinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Eflingar.

Rætt var við Elínu og  Kristjönu í fréttum Stöðvar 2 í nóvember 2018.

Elín krafðist rúmlega 16 milljóna króna, Kristjana krafðist rúmlega 30 milljóna króna og Anna Lísa 20 milljóna króna.

Áminning án lögmæts tilefnis

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að starfsmennirnir hafi fengið greidd laun á uppsagnarfresti í samræmi við kjarasamning og ráðningarsamning. Var Efling sýknuð af kröfu starfsmannanna fyrrverandi um greidd laun þar til Elín og Kristjana næðu 67 ára aldri. Sama í tilfelli Önnu Lísu sem krafðist launa til þess tíma að hún réði sig í nýtt starf.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Elínu Hönnu hefði verið veitt áminning í starfi án lögmæts tilefnis. Framganga Eflingar í tengslum við veitingu hennar hefði verið einkar tillitslaus í ljósi vitneskju forsvarsmanna Eflingar um andlega erfiðleika hennar. Viðbrögð Eflingar hafi verið langt umfram það tilefni að Elín hefði sagt frá væntum starfslokum náinnar samstarfskonu. Þar hafi Efling farið offari.

Var því fallist á rétt Elínar á miskabótum enda hafi áfall hennar augljóst vegna framgöngu Sólveigar Önnu og Viðars.

Einkar meiðandi umfjöllun

Sömuleiðis var fallist á kröfu Kristjönu um miskabætur vegna grófra persónulegra ásakana sem hún varð fyrir í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Byggði umfjöllunin meðal annars á gögnum sem dómstóllinn taldi ljóst að lekið hefði verið frá Eflingu. Efling bæri ábyrgð á því þótt ósannað væri að Sólveig Anna eða Viðar hefðu lekið gögnunum. Þá hefði Efling ekkert gert til að leiðrétta rangan fréttaflutning heldur lagt sitt af mörkum gagnvart Kristjönu með orðfæri sem hefði gefið til kynna að hún hefði tilheyrt hópi fyrri forsvarsmanna sem helst hefðu hugsað um eigin hag fremur en félagsmanna stefnda.

„Öll þessi umfjöllun var einkar meiðandi í garð stefnanda og til þess fallin að valda henni miklum miska eftir að hún hafði helgað stærstan hluta starfsævi sinnar stefnda og forvera hans af mikilli trúmennsku, eftir því fram kom hjá vitnum sem þekktu til starfa hennar um áratuga skeið. Með því að láta það viðgangast að gögnum úr eigu [Eflingar] væri komið á framfæri og þau mistúlkuð án leiðréttinga og síðan með eigin framgöngu fór [Efling] offari með saknæmum og ólögmætum hætti gagnvart stefnanda. Verður því fallist á að stefnandi eigi rétt á miskabótum,“ segir í dómnum.

Héraðsdómur taldi bótakröfu bæði Elínar og Kristjönu langt um fram fjárhæðir sem almennt væru greiddar í starfsmannamálum fyrir dómstólum. Þó bæri að líta á að opinberar ásakanir í tilfelli Kristjönu hefðu áhrif til hækkunar á bótum.

Var Efling dæmd til að greiða Elínu 700 þúsund krónur og Kristjönu 900 þúsund krónur í miskabætur. Til viðbótar fékk Elín rúmlega 700 þúsund krónur sem dregin höfðu verið af launum hennar vegna veikindaforfalla. Dómurinn taldi mega rekja veikindin til óvæginnar framgöngu við áminningu sem henni var veitt.

Meiðandi aðferð við uppsögn

Í tilfelli Önnu Lísu komst dómstóllinn að því að framkvæmd uppsagnar hefði verið lögleg en gerð athugasemd við framkvæmdina. Henni var, eftir tólf ára starf, fylgt af fundi að vinnustöð hennar þar sem staðið var yfir henni á meðan hún tók til sínar persónulegustu eigur og pottaplöntu áður en henni var fylgt niður í bílakjallara. Þar afhenti hún lykla og aðgangskort.

Þetta hafi verið gert að morgni dags þegar allir starfsmenni voru mættir til starfa og búið að boða til starfsmannafundar. Þó nokkrir starfsmenn hafi orðið vitni að því þegar Önnu Lísu var fylgt á dyr eftir uppsögn.

„Þessi aðferð var mjög meiðandi fyrir stefnanda og til þess fallin að láta líta svo út að tilefni hefði verið til að víkja henni fyrirvaralaust úr starfi,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Líkt og í tilfelli Elínar og Kristjönu þótti bótakrafa Önnu Lísu langt umfram þær fjárhæðir sem dómstólar hafa lagt til grundvallar sem miskabætur í starfsmannamálum. Voru henni dæmdar 400 þúsund krónur í miskabætur.


Tengdar fréttir

Stefna Eflingu vegna kjarasamningsbrota og framkomu stjórnenda

Þrír fyrrverandi starfsmenn Eflingar stéttarfélags hafa stefnt félaginu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur vegna meintra kjarasamningsbrota og ámælisverðrar framkomu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, nýendurkjörins formanns, og Viðars Þorsteinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Eflingar, sem gert er ráð fyrir að taki aftur við störfum á næstunni.

Segja forystu Eflingar haga sér eins og verstu skúrka

Fjármálastjóri og bókari Eflingar stéttafélags sem hafa verið í veikindafríi síðan síðasta haust hafa sent frá sér yfirlýsingar þar sem framkoma forystu Eflingar er hörmuð. Veikindi þeirra séu rakin til framkomu og atburða af hálfu stjórnenda á skrifstofu félagsins. Þá er forysta Eflingar sögð hafa sér eins og verstu skúrkar í atvinnurekendastétt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.