Gló­dís Perla og stöllur hennar í Bayern fyrstar til að leggja Barcelona að velli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Glódís Perla í leik kvöldsins.
Glódís Perla í leik kvöldsins. Thomas Hiermayer/Getty Images

Bayern München gerði sér lítið fyrir og vann magnaðan 3-1 sigur á Barcelona í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld. Um er að ræða fyrsta tap Barcelona á leiktíðinni, í öllum keppnum. Glódís Perla Viggósdóttir stóð vaktina í vörn Bayern að venju. Þá spilaði Sara Björk Gunnarsdóttir síðustu tíu mínúturnar í 1-0 tapi Juventus fyrir Arsenal á útivelli.

Liðin mættust á Nývangi í Katalóniu fyrir skemmstu og þar vann Barcelona öruggan 3-0 sigur. Það var því erfitt verkefni sem beið íslenska landsliðsmiðvarðarins og liðsfélaga hennar í kvöld.

Bayern mætti hins vegar til leiks með frábært leikplan og virtust einfaldlega mun klárari í leikinn heldur en gestirnir. Hin unga Klara Bühl kom Bayern yfir eftir aðeins fjögurra mínútna leik. Sydney Lohmann átti fyrirgjöf frá hægri og Bühl náði skoti að marki sem virtist hafa viðkomu í varnarmanni og lak þannig framhjá Söndru Paños, markverði Börsunga.

Aðeins sex mínútum síðar tvöfaldaði Lina Magull forystuna. Lea Schüller óð upp vinstri vænginn og renndi boltanum svo út á Linu sem skaut í fyrsta. Aftur virtist boltinn hafa viðkomu í varnarmanni á leið sinn í netið. Ekki að leikmönnum né stuðningsfólki Bayern gæti verið meira sama.

Staðan orðin 2-0 og þannig var hún allt þangað til í síðari hálfleik. Þá skiptu Schüller og Magull um hlutverk. Sú fyrrnefnda hafði verið haltrandi lungann úr fyrri hálfleik en harkaði af sér og skoraði þriðja mark Bayern þegar klukkustund var liðin.

Staðan orðin 3-0 og sigurinn svo gott sem kominn í hús, eða hvað? Geyse minnkaði muninn fyrir gestina fimm mínútum síðar eftir skelfileg mistök Mariu Grohs í marki Bayern. Reyndist það síðasta mark leiksins og lokatölur 3-1 Bayern í vil. Bæjarar þar með fyrsta liðið til að leggja Barcelona að velli á þessari leiktíð.

Staðan í riðlinum er þannig að Barcelona og Bayern eru á toppnum með 9 stig. Þar á eftir kemur Benfica með 6 stig á meðan Guðrún Arnarsdóttir og liðsfélgar hennar í Rosengård er án stiga.

Í Lundúnum var Juventus í heimsókn. Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk hóf leikinn á bekk gestaliðsins en kom inn á þegar tíu mínútur lifðu leiks. Þá var staðan 1-0 Arsenal í vil þökk sé marki Vivianne Miedema á 16. mínútu. Reyndist það eina mark leiksins og Skytturnar unnu því 1-0 sigur.

Arsenal er á toppnum með 10 stig eftir leiki kvöldsins. Þar á eftir kemur Lyon með 7 stig og Juventus 5 á meðan Zürich er án stiga.


Tengdar fréttir

Cloé skoraði tvö í sigri Ben­fi­ca á Rosengård

Cloé Lacasse, fyrrum leikmaður ÍBV, skoraði í kvöld tvö af þremur mörkum Benfica í 3-1 útisigri á Guðrúnu Arnarsdóttur og stöllum hennar í Rosengård þegar liðin mættust í Meistaradeild Evrópu.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.