Erlent

Selenskí og „andi Úkraínu“ valin manneskja ársins hjá Time

Atli Ísleifsson skrifar
Volodýmýr Selenskíj, forseti Úkraínu, hefur verið áberandi í fréttum á árinu.
Volodýmýr Selenskíj, forseti Úkraínu, hefur verið áberandi í fréttum á árinu. EPA

Volodýmýr Selenskí, forseti Úkraínu, og „andi Úkraínu“ hefur verið valinn manneskja ársins hjá bandaríska tímaritinu Time. 

Frá þessu var greint í morgun. Volodýmýr Selenskí hefur verið mjög áberandi í fréttum á árinu eftir að Rússar hófu innrás sína inn í Úkraínu í lok febrúar á þessu ári. 

Hinn 44 ára Selenskí tók við embætti forseta Úkraínu vorið 2019. Hann hafði áður starfað meðal annars sem leikari og skemmtikraftur. 

Í grein Time segir meðal annars að góður árangur Selenskí sem leiðtogi á stríðstímum hafi verið háð því að hugrekki sé smitandi. Hugrekkið hafi smitast yfir í aðra pólitíska leiðtoga landsins þegar það varð öllum ljóst að Selenskí hélt kyrru fyrir Úkraínu þegar árásir Rússa hófust. 

Tímaritið hefur valið manneskju ársins frá árinu 1927, en sá verður fyrir valinu sem talinn er hafa haft mest áhrif á fréttir ársins, sama hvort það sé til góðs eða ills.

Elon Musk, stofnandi Tesla og SpaceX, var valin manneskja ársins hjá Time á síðasta ári og Joe Biden, þá verðandi forseti Bandaríkjanna, og Kamala Harris, þá verðandi varaforseti, árið 2020.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×