Erlent

Vildu koma prins til valda í Þýskalandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar leiða Hinrik XIII, prins af Reuss ætti, eftir að hann var handtekinn í morgun.
Lögregluþjónar leiða Hinrik XIII, prins af Reuss ætti, eftir að hann var handtekinn í morgun. AP/DPA/Boris Roessler

Fólkið sem handtekið var í Þýskalandi í morgun og er grunað um skipulagningu valdaráns ætlaði að reyna að koma manni úr gamalla þýskri konungsætt til valda. Sá heitir Hinrik XIII P.R. en annar maður sem heitir Ruediger v.P. átti að leiða herafla hins nýja Þýskalands.

Hann 71 árs gamli Hinrik kallar sig prins og er sagður tilheyra Reuss-ættinni, sem drottnaði á árum áður yfir hluta Austur-Þýskalands. Reuters vitnar í þýska saksóknara sem segja Hinrik hafa leitað til ráðamanna í Rússlandi því hann hafi talið Rússa mikilvæga í þeirri nýjum heimsskipan sem hann vildi mynda.

Engar vísbendingar eru um að Rússar hafi svarað honum.

Aðrir meðlimir Reuss-ættarinnar höfðu áður útskúfað Hinriki vegna öfga hans.

Hinrik og aðrir sem voru handteknir eru sagðir tengjast Reichsbürger-hreyfingunni svokölluðu sem er hreyfing fjar-hægri öfgamanna sem telja ríkisstjórn Þýskalands ólögmæta. Um tuttugu þúsund manns eru sagðir tilheyra hreyfingunni.

Alls voru 25 handteknir í aðgerðum morgunsins, þar af einn Rússi. Einn þeirra var handtekinn í Austurríki og annar á Ítalíu.

Hópurinn er einnig sagður innihalda Birgit Malasack-Winkemann, fyrrverandi þingkonu þýska hægriflokksins Alternative für Deutschland eða AfD.

Sjá einnig: Þýsku leyni­þjónustunni heimilt að fylgjast með AfD

Saksóknarar segja 27 aðra grunaða um aðild að ráðabrugginu. Þýski miðillinn DW segir yfirmann í sérsveitum Þýskalands vera meðal hinna grunuðu auk annarra hermanna í þýska hernum.

Hinrik og aðrir sem voru handteknir í morgun eru sagðir hafa ætlað sér að gera árás á þýska þinghúsið og taka þar fólk í gíslingu. Síðan hafi þeir ætlað að mynda nýja ríkisstjórn undir stjórn Hinriks.

Fram­ hefur komið að rúmlega þrjú þúsund lögreglumenn hafi tekið þátt í samræmdum aðgerðum og gert húsleit í rúmlega 130 stöðum – heimilum og skrifstofum – í ellefu af sextán löndum Þýskalands snemma í morgun. Þá var einn handtekinn í Austurríki og annar í Ítalíu vegna málsins í morgun.

DW segir einnig að tilefni aðgerða lögreglunnar í morgun hafi verið rannsókn á öðrum hópi manna sem tengjast Reichsbürger-hreyfingunni og að sá hópur hafi verið að skipuleggja að ræna Karl Lauterbach, heilbrigðisráðherra Þýskalands.

Fólk sem tengist hreyfingunni er sagt aðhyllast margvíslegum samsæriskenningum eins og Q-anon og trúa því að einhvers konar djúpríki stjórni Þýskalandi.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×